Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Skaut Taylor átta skotum en er ekki ákærður

Mynd: EPA-EFE / EPA
Mótmæli brutust út víða í Bandaríkjunum í gærkvöld eftir að ákærudómstóll ákvað að ákæra ekki lögreglumann fyrir morð. Hann skaut konu til bana í mars. Lilja Hjartardóttir, stjórnmálafræðingur hjá Reykjavíkurakademíunni, segir að málið segi töluvert mikið um stöðu svartra í landinu. 

Breonna Taylor var sofandi við hlið kærasta síns á heimili þeirra í Louisville 13. mars. Þau heyrðu læti fyrir utan og kölluðu til að spyrja hver væri þar en fengu ekkert svar. Þar voru þrír lögregluþjónar að sinna ábendingu um fíkniefnatengda starfsemi á heimilinu. Þegar lögregla braut sér leið inn í íbúðina skaut unnusti Taylor einn lögreglumanninn í fótinn. 

Lögregla svaraði með því að skjóta þrjátíu skotum, þar af fóru átta í Taylor, sem lést. Ákærudómstóll komst að þeirri niðurstöðu í gær að ákæra einn lögreglumanninn. Ekki fyrir morð - heldur fyrir að skjóta í áttina að næstu íbúð og stofna lífi fólks þar í hættu.

Mynd með færslu
Lilja Hjartardóttir, stjórnmálafræðingur. Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

 

Lilja hefur búið um árabil í Bandaríkjunum og fylgist vel með þróun mála þar. Hún segir að mótmælin sem brutust út í gær eigi sér djúpar rætur. Mótmælin að undanförnu minni á öldu mótmæla í Bandaríkjunum á sjöunda áratugnum. Samfélagsmiðlar hafi miklu breytt, nú sé ekki hægt að líta fram hjá lögregluofbeldi.

En hvað segir ákæran í gær okkur um stöðu svartra í landinu? „Að lögreglumaðurinn sé dæmdur fyrir að valda öðrum íbúum hússins ónæði, eða setja þau í hættu, segir okkur töluvert mikið og ofbeldið. Það bara heldur stanslaust áfram og það breytist svo lítið þrátt fyrir þessi gífurlegu mótmæli,“ segir hún.

Mótmælin í nótt voru í borgum víða um landið, svo sem í Louisville, New York, Chicago og Los Angeles. „Fólkið sem við sjáum á götunum er af öllum kynþáttum, öllum aldri og það er mikil samstaða,“ segir Lilja.

Mótmælaaldan í ár fór af stað í maí þegar lögregla drap George Floyd en það er langt í frá eina morðið. „Á 20. öldinni eru það þúsundir svartra manna sem voru myrt án dóms og laga og listinn lengist alltaf. Alltaf ungt, svart fólk sem er verið að myrða af lögreglu.“