Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Samvinnan er viðbrögð við krísu

24.09.2020 - 14:16
Mynd: Háskóli Íslands / Háskóli Íslands
Samstarf allra flokka í bæjarstjórn, eins og ákveðið var að taka upp á Akureyri í vikunni, eru viðbrögð innan stjórnsýslunnar lík því sem sáust eftir hrun. Þetta segir Eva Marín Hlynsdóttir stjórnmálafræðingur. „Það eru dæmi um þetta sérstaklega eftir hrunið, annað hvort var tekin ákvörðun um að leggja niður minni- og meirihluta og mynda nokkurs konar þjóðstjórn eða þá að það var óformlegt samkomulag um að það væru bara allir saman að vinna að því að reyna að retta úr kútnum eftir hrunið."

Eva segir að aðstæður þær sem samfélagið finnur sig í núna vegna kórónuveirufaraldursins séu svipaðar.

„Já ég held að það geti í raunini alveg verið það sem við erum að upplifa núna, þetta krísuástand, maður sér sambærilega taktík og fyrstu árin eftir hrun, þessi orðræða um að við erum saman í þessu og að vinna að sama marki, það er verið að róa lífróður, þannig að ég held að þetta sé klárlega einhvers konar viðbrögð við þessu krísuástandi,” segir Eva og býst fastlega við að viðlíka samstarf og er nú hafið hjá bæjarstjórn Akureyrar verði tekið upp víðar innan stjórnsýslunnar næstu misserin.

Hlusta má á viðtalið við Evu í spilaranum hér að ofan.

 

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður