Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Samið um stuðning vegna hruns í ferðaþjónustu

24.09.2020 - 11:36
Mynd með færslu
Sveinn Margeirsson og Aðalsteinn Þorsteinsson við undirritun samningsins Mynd: Byggðastofnun
Í gær var undirritaður fyrsti samninguirnn um stuðning ríkisins við sveitarfélög vegna hruns í ferðaþjónustu. Fimm samningar til viðbótar verða undirritaðir á næstu dögum og vikum.

Í fjáraukalögum er gert ráð fyrir 150 milljónum króna til sértækra aðgerða hjá sex sveitarfélögum sem samkvæmt greiningu starfshóps á vegum Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins standa hvað verst að vígi vegna niðursveiflu í ferðaþjónustu.

Aðgerðirnar eiga að styðja við atvinnulíf og samfélag

Þetta eru Skútustaðahreppur, Sveitarfélagið Hornafjörður, Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra og Bláskógabyggð. Markmið aðgerðanna er að skapa betri grundvöll fyrir fjölbreyttara atvinnulíf og styrkari stoðir, stuðla að nýsköpun og búa til tækifæri. Byggðastofnun annast samningagerð, útgreiðslu fjármuna og nauðsynlega eftirfylgni.

Undirrituðu fyrsta samninginn

Nú hafa Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, og Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, undirritað fyrsta samninginn. Þær aðgerðir sem Skútustaðahreppur hyggst fara í lúta að hamingjuverkefni Skútustaðahrepps, aðgerðaráætlun verkefnisins Nýsköpunar í norðri og greiningu orkukosta.