Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Óþægileg samkennd með ófullkomnu fólki

Mynd: Borgarleikhúsið / Borgarleikhúsið

Óþægileg samkennd með ófullkomnu fólki

24.09.2020 - 12:17

Höfundar

Það er ekki alltaf auðvelt að segja til um hvar samúð áhorfenda á að liggja í leikverkinu Oleanna, segir Snæbjörn Brynjarsson gagnrýnandi. „Að mörgu leyti höfum við þegar skipt okkur í fylkingar áður en við sjáum þetta verk.“

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Rauðar, þykkar, eilítið yfirþyrmandi bækur mynda háan, að því er virðist ókleifan vegg á sviðinu. Þetta eru gamlar bækur, óaðgengilegar og ógnandi, eins og sumar menntastofnanir geta verið, og að undanskildu skrifborðinu með lampanum, mac-tölvunni og tveimur stólum eru þær eina sviðsmyndin í frekar einföldu tveggja manna leikverki, sem er fyrsta frumsýning Borgarleikhússins síðan plágan lokaði á menningarlíf í landinu.

Verkið er eftir bandaríska leikskáldið David Mamet, í þýðingu Kristínar Eiríksdóttur, og nefnist Oleanna. Leikendurnir tveir eru Hilmir Snær Guðnason og Vala Kristín Eiríksdóttir. Hilmir er einnig leikstjóri ásamt Gunnari Gunnsteinssyni, búningar og leikmynd eftir Sean Mackaoui, lýsing er í höndum Þórðar Orra Péturssonar og hljóðmynd í fimum fingrum Garðars Borgþórssonar, og er þá allt listrænt teymi þessarar sýningar upptalið.

Við kynnumst í þremur senum Carol, ungum nemanda sem Vala Kristín leikur, þegar hún mætir á fund prófessorsins Johns, leiknum af Hilmi Snæ. Neminn kemur í fyrstu til þess að fá einhver svör. Hún bókstaflega skilur ekkert í tyrfnum texta námsefnisins og uppskrúfuðu máli prófessorsins en það endar á að hún kærir hann til háskólaráðs fyrir óviðeigandi hegðun og að lokum líkamsárás. Það er ekki alltaf auðvelt að segja til um hvar samúð okkar ætti að liggja í þessu verki. Að mörgu leyti höfum við þegar skipt okkur í fylkingar áður en við sjáum þetta verk. Það eru allir sem ætla sér að taka afstöðu búnir að taka hana þegar kemur að #metoo-byltingunni, og búnir að velja sér hvorum megin við skotgröfina við ætlum að vera í umræðunni um pólitískan rétttrúnað eða „cancel-kúltúr“ og það merkilega við þetta verk er að það virðist nánast vera svar við umræðu síðustu þriggja ára en er engu að síður frá árinu 1992. Það sýnir kannski að það er ekkert nýtt að nemendur reyni að siða kennara til og snúi orðræðu kennara í hugvísinda- og félagsvísindadeildum um jaðarsetningu og valdaójafnvægi upp á þá sjálfa. Í fyrstu kemur nemandinn valdalaus og nánast ófær um að tjá sig á fund kennara sem varla má vera að því að yrða á hana en undir lokin hefur hún öðlast völdin. Og það er ekki endilega augljóst hver er ofbeldismaðurinn, hver er gerandinn og hver þolandinn, ef maður ætlaði að feta einhvern milliveg myndi maður kannski segja að þau væru bæði gerendur, bæði ofbeldismenn sem ætlast bæði tvö til þess að fá viðurkenningu á að þau séu þolendurnir. En það er víst mannlegt eðli.

Það hefur eflaust verið erfitt verk að þýða texta Mamets. Hann hefur nokkuð sérstakan stíl, það er jafnvel talað um svokallað „Mamet-speech“ eða Mamet-mál, en Kristínu tekst þokkalega til. Þetta er brotið tungumál hálfkláraðra setninga og frammígripa, og stundum gróft, ekki ósvipað breska „in your face“-leikhúsinu sem náði sínum hápunkti um svipað leyti og þetta verk var skrifað, en þó þetta sé ekki fagurt leikhúsmál þá er þarna engu að síður fagurfræði.

Verkið er pólitískt og skilaboð þess eru kannski óvenjuleg á íslensku leiksviði. Nafn verksins, Oleanna, vísar til fyrirmyndarsamfélags sem Norðmaðurinn Ole Bull ætlaði að stofna í Ameríku á nítjándu öld og varð innblástur að þjóðlagi sem gerði grín að svona útópískum pælingum. Og undir lokin er nemandinn ekki lengur aðeins stúlka sem er að ströggla með námsefni sitt heldur félagslegur aktívisti, réttlætisriddari, sem er farin að nota ásakanirnar til að ritskoða námsefnið. Og það er þar sem helsti veikleiki leikritsins liggur að mínu mati, því það er mun frekar í persónulegu sambandi kennarans og nemandans sem spennan liggur og ekki hugmyndafræðilegum vangaveltum verksins. Engu að síður eru þær vangaveltur sem við gætum tekið þaðan nokkuð spennandi. David Mamet er opinskár stuðningsmaður Donalds Trumps og Ísraelsríkis, og það eru ekki skoðanir sem margir í íslenskum leikhúsheimi hafa.

Sviðsmyndin var í anda verksins blóðug og ógnandi en það hefði verið gaman að sjá kannski meiri tilbrigði í búningunum. Mér fannst óþarflega mikið stafað ofan í okkur áhorfendur þegar Carol kom aftur inn í myndina nánast klædd eins og skrifstofukona frekar en námsmaður til að undirstrika að hún hefði nú öðlast vald yfir eigin sögu. Leikararnir tveir stóðu sig fantavel. Vala Kristín stóð sig ágætlega í að vekja upp óþol, frústreringu og reiði, og sama má segja um Hilmi Snæ sem dró upp sannfærandi mynd af hégómlegum og yfirborðskenndum prófessor sem veit alltof vel að hann hefur fúskað sig í gegnum lífið, náttúrulegum sjarmör. Báðar persónur vöktu samkennd og bræði í áhorfendum, trúi ég.

Verkið er vel uppbyggt, það vekur óþægilega samkennd með ófullkomnu fólki, mörg okkar muna eftir lélegum og óviðeigandi kennurum sem óafvitandi misnota völd sín en á sama tíma vekja fjölskyldufeður í vandræðum með fastráðningar og fasteignakaup óhjákvæmilega samúð. Eflaust veltur afstaða okkar til persónanna að einhverju leyti á því hver við erum og okkar fordómum en nálgist maður það með opnum huga vekur það eflaust ýmsar hugrenningar og eldheitar umræður.

Tengdar fréttir

Leiklist

Hættulegra að segja þessa sögu eftir #metoo-bylgjuna

Menningarefni

Snerting leyfð að nýju á leiksviði