Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ósammála um forsendur kjarasamninga - kosið um uppsögn

24.09.2020 - 17:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson
Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands komust ekki að niðurstöðu á fundi launa- og forsendunefnda í dag um það hvort forsendur lífskjarasamningsins séu brostnar eða ekki. SA telur forsendur brostnar en ASÍ telur þær hafa staðist.

Forsendurnar þrjár:

  • Að kaupmáttur hafi aukist á samningstímanum.
  • Að vextir hafi lækkað fram að endurskoðun samningsins.
  • Að stjórnvöld hafi staðið við gefin fyrirheit samkvæmt yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar sem gefnar voru í tengslum við samningana.

Í tilkynningu ASÍ eftir fundinn í dag segir að eftir greiningu sé það mat ASÍ að allar forsendur hafi staðist. Helsta óvissan var með þriðja punktinn um yfirlýsingu stjórnvalda, en ASÍ segist hafa loforð stjórnvalda fyrir því að frumvarp um bann á 40 ára verðtryggðum lánum verði lagt fram á haustþingi.

Þrjár leiðir SA sem segja ASÍ hóta verkföllum

Í yfirlýsingu SA er kveðið við annan tón. Þar er niðurstaðan sú að forsendur séu brostnar og því sé SA heimilt að segja upp kjarasamningum um komandi mánaðamót, komi verkalýðshreyfingin ekki til móts við atvinnulífið.

SA segist hafa lagt til þrjár leiðir til að bregðast við:

  • -Fresta launahækkunum en efna Lífskjarasamninginn að fullu og lengja samninginn sem frestuninni nemur.
  • -Lækka framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði tímabundið. 
  • -Fresta endurskoðun kjarasamninga tímabundið, því koma bóluefnis fyrir COVID-19 gjörbreytir efnahagsforsendum á næsta ári. Á meðan það liggur ekki fyrir sé erfitt að taka afdrifamiklar ákvarðanir.

Í yfirlýsingu SA segir að ASÍ hafi hafnað öllum tillögunum og hótað víðtækum verkföllum. Framkvæmdastjórn SA boðar því til allsherjar atkvæðagreiðslu á meðal aðildarfyrirtækja um afstöðu þeirra til uppsagnar kjarasamninga, sem taki gildi 1. október.

Rætt var við Drífu Snædal, forseta ASÍ, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, í Speglinum.

Mynd: RÚV / RÚV