Nýtt frá Baggalúti, Hvanndalsbræðrum og fleirum

Mynd: Baggalútur / Facebook Baggalútur

Nýtt frá Baggalúti, Hvanndalsbræðrum og fleirum

24.09.2020 - 16:40

Höfundar

Það er af nógu að taka í útgáfu vikunnar af nýrri islenskri tónlist í Undiröldunni. Við heyrum af vesturíslensku skáldi úr fortíðinni, vinahópi frá Akureyri, söngelskri hestakonu, hressum Færeyingum og fleira fólki.

Baggalútur – Er eg að verða vitlaus eða hvað?

Er eg að verða vitlaus, eða hvað? er fyrsta lagið á væntanlegri plötu Baggalúts þar sem flutt eru ný lög við vísur og kvæði vesturíslenska skáldsins Káins sem fæddist á þarsíðustu öld. Um upptökustjórn og hljóðblöndun sá Guðmundur Kristinn Jónsson í Hljóðrita en lagið syngur Guðmundur Pálsson, Þorsteinn Einarsson spilar á gítar og dóbró auk þess sem Bragi Valdimar Skúlason leikur á orgel.


Hvanndalsbræður – X

Hljómsveitin Hvanndalsbræður hefur gefið út sína áttundu plötu, breiðskífuna Hraundranga sem inniheldur lagið X auk níu annarra slagara. Sveitin var stofnuð árið 2002 af þeim Rögnvaldi Braga Rögnvaldssyni, Val Frey Halldórssyni og Sumarliða Helgasyni. Hugmyndina fengu drengirnir í ölæði í Hafnarstræti 107b, húsi sem stendur í Skátagilinu á Akureyri.


Fríða Hansen – Tímamót

Fríða Hansen reiðkennari og tónlistarkona frá Leirubakka í Landssveit gaf út síðastliðna helgi lagið Tímamót ásamt myndbandi. Í viðtali við tímaritið Eiðfaxa á dögunum sagðist Fríða vera „ljónheppin að geta starfað við áhugamálin,“ sem eru tónlist og hestamennska.


Páll Finnur Páll – Býurin Svevur

Færeyska hljómsveitin Páll Finnur Páll heyrðist í Undiröldunni í síðustu viku með ballöðuna sína Nær kemur tú heim en nú er komið að stuðlaginu Býurin Svevur. Sveitin var stofnuð í Færeyjum seint á síðustu öld og hefur síðan gefið út einar fimm vinsælar plötur á heimaslóðum.


September & Birgir – Hammer To Fall

Nýjasta lag September, sem er dúett lagahöfundanna Eyþórs Úlfars Þórissonar og Andra Þórs Jónssonar, er komið út og heitir Hammer To Fall. Lagið syngur söngvarinn Birgir sem gaf út sína fyrstu sólóplötu fyrr á árinu.


Myrkvi – Gamechanger

Nú er farið að styttast í að fyrsta plata Magnúsar Thorlacius eða Myrkva komi út en breiðskífan Reflections er áætluð í október. Hlustendur ættu að kannast lögin Coastline og Skyline sem hafa hljómað töluvert á Rás 2, en nú er það þriðji og síðasti söngull fyrir útgáfu plötunnar Reflections, Gamechanger.


Valdís – Get Better

Valdís er fædd árið 1999 og er frá Sauðárkróki. Hún hefur tekið þátt í alls konar verkefnum og fyrir stuttu söng hún á Tónaflóði Rúv. Lagið Get Better er fjórði söngull hennar og fjallar um að vilja vinna í því að vera besta útgáfan af sjálfum sér og það kemur út á morgun.


Hylur – Me, myself & I

Fyrsta lag Hyls, Me, Myself & I, leit dagsins ljós í byrjun mánaðarins og er hressilegur rokkslagari. Kvartettinn er nokkuð brattur og hótar útgáfu á frekara efni á næstunni en þröngskífa þeirra, sem Albert Finnbogason tekur upp, er víst á síðustu metrunum.