Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Neytendasamtökin vara við tilboðum vegna smálána

24.09.2020 - 11:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Neytendasamtökin vara fólk sem tekið hefur smálán við tilboðum frá innheimtufyrirtækinu Almennri innheimtu um að ganga frá greiðslu skulda á grundvelli bréfa sem send hafa verið á skuldara. Neytendasamtökin, sem hafa lengi deilt á Almenna innheimtu, segja að orðalagið í bréfunum sé villandi. Bréfin hafi verið send á fólk með nokkrar skuldir og talað sé um heildarskuld en þegar betur er að gáð eigi boð fyrirtækisins aðeins við um hluta af skuldum hvers og eins.

Neytendasamtökin birtu færslu á vef sínum í dag þar sem þau vara við tilboði sem Almenn innheimta hafi gert skuldurum. Þar bjóðist þeim að gera upp heildarskuld með eingreiðslu höfuðstóls og sé áfallinn kostnaður þá látinn falla niður. Ekkert kröfunúmer er að finna í bréfunum, aðeins upplýsingar um heildarskuld og höfuðstól.

Nokkrir skuldarar hafa leitað til Neytendasamtakanna að þeirra sögn og allir lagt þann skilning í bréfið að þar með geti fólk losnað undan öllum sínum skuldum með góðum afslætti. Neytendasamtökin hvöttu fólk hins vegar til að óska nánari skýringa frá fyrirtækinu og segja að þá hafi komið í ljós að heildarskuldin væri aðeins ein af skuldum fólks við fyrirtækið. 

Neytendasamtökin vara fólk því við að ganga að tilboði Almennrar innheimtu nema það sé ljóst að það skuldi raunverulega höfuðstólinn sem kveðið er á um.