Leggja leyndarmálin á borðið í leikgerð Kópavogskróniku

Mynd: Kópavogskrónika-kynningarefni / Þjóðleikhúsið

Leggja leyndarmálin á borðið í leikgerð Kópavogskróniku

24.09.2020 - 15:21

Höfundar

Kópavogskrónika eftir Kamillu Einarsdóttur kom út fyrir tveimur árum og vakti mikla athygli meðal annars fyrir bersöglar og krassandi kynlífslýsingar. Nú hefur bókin verið sett í leikhúsbúning og langþráð frumsýning verksins í leikstjórn Silju Hauksdóttur er á morgun.

„Hún er um hvað Kópavogurinn er æði, bömmer og svona,“ segir Kamilla Einarsdóttir um efnistök bókarinnar. Ilmur Kristjánsdóttir sem fer með aðalhlutverkið segir að hún og Silja Hauksdóttir hafi reynt að kreista kjarnann úr bókinni í leikritið. „Persónan í bókinni er að skrifa til dóttur sinnar, skera sjálfa sig upp og opinbera fyrir henni.“ Ilmur segir að söguhetja bókarinnar sé hispurslaus og heiðarlegri en fólk eigi að venjast þegar fólk tali við börnin sín. „Það er svo hressandi. Þetta hafði alveg líkamleg áhrif á mig, eins og það væri verið að taka leyndarmálin mín og leggja þau á borðið.“

Mynd með færslu
 Mynd: Kópavogskrónika-kynningarefni - Þjóðleikhúsið
Gjálífi og svall koma mikið við sögu í bókinni og leikritinu.

Kamilla segir það hafa verið mjög skemmtilegt að sjá bókina lifna við á leiksviðinu. „Fyrst hélt ég að þetta yrði hræðilegt og vildi alls ekki koma nálægt þessu. En svo fengu þær mig til að mæta á samlestur og þá byrjaði mér að finnast gaman að fylgjast með. Nú er ég orðin óþolandi ég vil helst mæta tveimur tímum fyrr á æfingar og hjálpa til við að sópa.“ Hún segist þó hafa reynt að skipta sér sem minnst sköpunarferlinu, og hafi til að mynda ekkert komið nálægt skrifunum.

Fyrst átti að frumsýna leikritið 14. mars, sem var daginn fyrir samkomubann, en það var slegið af. „Þegar við komum aftur að því gátum við séð hvað við vildum bæta, tíminn er alltaf að vinna með manni,“ segir Ilmur. Sagan gerist að stærstum hluta í Kópavogi og Ilmur segir að lagt hafið verið upp með það í leikmyndinni. „Það er mikil steinsteypa. Þú færð dáldið á tilfinninguna að þú sért á hringtorginu fyrir framan Hamraborg.“ Það var poppstjarnan Auður sem samdi tónlistina í verkinu og Ilmur segir hana spila stóra rullu. „Skapar stemmingu alveg frá upphafi.“

Mynd: RÚV / Menningin
Menningin leit við á æfingu á Kópavogskróniku í mars áður en frumsýningin var blásin af vegna samkomubanns.

Kamilla Einarsdóttir er eins og stendur að vinna að nýrri skáldsögu sem hún segir ekki vera eins og þá fyrstu. „Hún er ekki um konu á bömmer á Selfossi,“ segir hún létt. „Þó það væri kannski ekki slæm hugmynd. Taka hringinn og fá styrk frá Byggðastofnun. Það vilja allir komast á kortið. Það eru örugglega margir góðir staðir til að vera í ástarsorg og láta brunda framan í sig.“ Hún vill hins vegar lítið gefa upp um nýju bókina sem taki stöðugum breytingum. „Ég skrifa bara allt sem mér finnst fyndið og skemmtilegt, svo bara breytist það.“ Eins og sjá má af Instagram-reikningi hennar er hún hins vegar mikið í Kópavogi að skrifa. „Það er svo næs að sitja á Catalínu, og bara sportbörum að skrifa. Það er enginn að bögga þig, allir bara að horfa á sjónvarpið, aldrei trúbadorar.“

Stöllurnar eru spenntar fyrir frumsýningu sem Ilmur segir að fylgi þó alltaf stress. „Þetta er mjög þægilegt fyrir mig,“ segir Kamilla, „ég þarf bara að pæla í hverju ég ætla að vera og hvort það sé nokkuð krumpað.“ Ilmur segir að flestar konur tengi við söguhetju Kópavogskróniku að einhverju leyti, sama hversu langt þær hafi gengið í fylliríi og flippi. „Auma sjálfsmynd og finnast maður ómöguleg móðir. En vera samt fyndin og skemmtileg. Bókin er náttúrulega sjúklega fyndin. Og sár.“

Hulda Geirsdóttir ræddi við Ilmi Kristjánsdóttur og Kamillu Einarsdóttur í Morgunútvarpinu.

Tengdar fréttir

Leiklist

Leikgerð Kópavogskróniku var áreynslulaus getnaður

Bókmenntir

Kamilla með forvitnilegustu kynlífslýsinguna

Bókmenntir

„Ekki mínar uppáferðir og fyllirí“

Bókmenntir

Bömmer sem er samt upplífgandi