„Í sjálfu sér engar stórkostlegar tilfinningar“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

„Í sjálfu sér engar stórkostlegar tilfinningar“

24.09.2020 - 11:54
KR-ingurinn Óskar Örn Hauksson er orðinn leikjahæstur í sögu efstu deildar karla í fótbolta á Íslandi með 322 leiki. Óskar er stoltur af afrekinu og segist ekki sjá fyrir sér að leggja skóna á hilluna í bráð.

Óskar Örn, sem er fæddur árið 1984, hóf knattspyrnuferilinn með Njarðvík. Þaðan fór hann til Noregs þar sem hann lék með Molde og Sogndal. Árið 2004 gekk hann til liðs við Grindavík og var þar þangað til árið 2007 þegar hann gekk til liðs við KR þar sem hann hefur verið síðan þá. Hann hefur skorað 78 mörk og átt 65 stoðsendingar í efstu deild og er nú leikjahæsti leikmaðurinn í sögu úrvalsdeildarinnar. Met sem markvörðurinn Birkir Kristinsson átti áður. 

„Það voru í sjálfu sér engar stórkostlegar tilfinningar í gangi. En vissulega margir leikir og mörg ár. En ég er bara stoltur. Tek þarna fram úr Birki sem er mikill höfðingi og merkilegur í íslenskri fótboltasögu. Þannig ég er bara hrikalega stoltur af því,“ sagði Óskar Örn þegar RÚV ræddi við hann í gær á KR-vellinum.

Líður vel og telur sig eiga eitthvað eftir

Þetta eru orðnir margir leikir og Óskar, sem varð 36 ára fyrir stuttu, segist þó vera langt frá því að vera hættur. „Mér líður vel í líkamanum og allt það og það skiptir máli. En það er alveg eitthvað eftir.“

En ætlar hann að enda ferilinn hjá KR? „Já, eins og staðan er í dag þá sé ég lítið annað í stöðunni og hef kannski ekki mikinn áhuga á neinu öðru. Auðvitað er ég stoltur af þessu afreki mínu. En þegar fram í sækir verður gaman að horfa til baka. Ég sá nú einhvern lista nýlega yfir þá leikjahæstu og mér sýnist nú ekki margir vera enn að spila sem gera sig eitthvað líklega til að ógna þessu meti mínu,“ sagði Óskar Örn Hauksson fyrirliði KR og leikjahæsti leikmaður efstu deildar í fótbolta.