Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hundar þefa uppi COVID smitaða farþega

24.09.2020 - 19:25
Mynd: Skjáskot úr myndbandi AP / Skjáskot úr myndbandi AP
Nýstárlegri aðferð er beitt í Finnlandi við greiningu kórónuveirunnar meðal ferðamanna. Fjórir hundar hófu störf á alþjóðaflugvellinum í Helsinki í gær og hafa það hlutverk að þefa uppi veiruna í farþegum.

Hundarnir verða við störf til reynslu næstu fjóra mánuði og þá verður ákvörðun tekin um framhaldið. Þeim er ekki leyft að þefa af hverjum sem er heldur koma þeir ferðalangar sem vilja á sérstaka þef-staði á flugvellinum. 

Fólk þurrkar af sér með klút, hann er svo settur í ílát fyrir framan hundinn. Ef hundarnir telja sýni jákvætt er viðkomandi ferðamaður hvattur til að fara í hefðbundna sýnatöku. Hundaþjálfararnir segja að það taki aðeins um tíu sekúndur fyrir hundana að greina sýnin. Niðurstöðuna láta þeir svo í ljós ýmist með því að leggjast niður, gelta eða krafsa. 

Held Nuro, hundaþjálfari, segir að allt sem hundar þurfi til að verða góðir í að greina smit sé að hafa gott lyktarskyn. „Það skiptir ekki mála af hvaða tegund hundurinn er, svo lengi sem hann er spenntur fyrir starfinu. Þetta eru engin geimvísindi. Þetta er auðvelt því hundar eru alltaf að þefa,“ segir hún. 

Finnland er annað landið í heiminum sem nýtir sér þjónustu hunda við greiningu sýna. Slíkt hefur verið við lýði á alþjóðaflugvellinum í Dúbaí síðan í sumar. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir