Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hundar mjög gagnlegir í kórónuveirufaraldrinum

Sniffer dog E.T. with trainer Anette Kare at the Helsinki airport in Vantaa, Finland, Wednesday Sept. 22, 2020. Finland has deployed coronavirus-sniffing dogs at the Nordic country’s main international airport in a four-month trial of an alternative testing method that could become a cost-friendly way to identify infected travelers. (Antti Aimo-Koivisto/Lehtikuva via AP)
 Mynd: Antti Aimo-Koivisto - AP
Lögreglan vonast til að geta fengið sérþjálfaða hunda til Íslands sem geta þefað uppi kórónuveirusmit.

Hundar hafa verið mjög gagnlegir í kórónuveirufaraldrinum. Í mörgum löndum hefur verið útgöngubann. Fólk má þá bara fara í vinnuna og heim aftur, út í búð og apótek og til læknis. Það má líka fara út að ganga með hundinn af því að hann þarf að fá hreyfingu. Hundar eru líka góður félagsskapur. Þess vegna hafa margir fengið sér hund upp á síðkastið.

Nú er búið að finna nýtt hlutverk fyrir hunda í kórónuveirufaraldrinum. Þó ekki alla hunda heldur bara hunda sem eru þjálfaðir sérstaklega til að finna þá sem eru með kórónuveirusmit. Það mætti kalla þá COVID-hunda. Hundar hafa mjög næmt þefskyn og geta fundið lykt sem fólk getur alls ekki fundið. Það er hægt að þjálfa þá til að þekkja sérstaklega ákveðna lykt og láta vita ef þeir finna hana.

Mynd með færslu

Fyrstu COVID-hundarnir byrjuðu að leita að kórónuveirusmitum á flugvellinum í Helsinki í Finnlandi í gær. Þegar farþegar fóru úr flugvélum, sem voru að lenda á flugvellinum, áttu þeir að strjúka um hálsinn á sér með þurrku. COVID-hundarnir þefuðu svo af þurrkunum. Ef þeir fundu lykt af kórónuveirusmiti létu þeir vita. Fólkið sem lyktin var af fór í skimun til að staðfesta að það væri smitað. Hundarnir reyndust vera mjög flinkir að finna út hverjir væru með kórónuveirusmit.

Hundar geta fundið kórónuveirusmit þótt fólk hafi engin einkenni um að hafa smitast. Þess vegna er víða byrjað að þjálfa COVID-hunda, til dæmis bæði í Þýskalandi og Bretlandi.

Lögreglan á Norðurlandi vestra sér um að þjálfa leitarhunda fyrir lögregluna alls staðar á Íslandi. Þar eru hundar þjálfaðir til að leita að fíkniefnum og til að leita að sprengjum. Nú bætist kannski við þjálfun COVID-hunda.

Stefán Vagn Stefánsson er lögreglustjóri þar. Hann hefur fylgst vel með þjálfun COVID-hunda í öðrum löndum. Hann segist geta fengið hunda frá útlöndum til Íslands til að leita að kórónuveirusmitum. Lögreglan hér myndi ljúka þjálfun hundanna. Þeir gætu byrjað að leita tveimur mánuðum eftir að þeir kæmu til landsins.

„Bresku hundarnir gátu tekið allt að 250 sýni á klukkutíma,“ segir Stefán Vagn. „Það þýðir að tveir hundar gætu tekið 500 sýni á klukkutíma.“

Lögreglan bíður spennt eftir að sjá hvernig gengur með COVID-hunda í öðrum löndum. En svo á eftir að koma í ljós hvort ákveðið verður að fá hundana hingað til lands.

annathr's picture
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur