Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hætt að senda eintök af Sunday Times til Íslands

24.09.2020 - 14:22
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - Eymundsson
„Helgarblað Sunday Times er hætt að koma til landsins,“ segir Borgar Jónsteinsson, rekstrarstjóri verslunarsviðs hjá Pennanum Eymundsson, aðspurður um hvort verslunin sé hætt að selja erlend dagblöð. „Þeir ákváðu að hætta að senda helgarblöðin til Íslands því þetta eru svo fá eintök. Við erum enn með helgarblöð Der Zeit og Sunday Telegraph.“

„Það vita það kannski ekki margir en við prentum líka erlend dagblöð í Austurstræti í stórum prentara. Þar er hægt að fá prentað út til dæmis Sidney News eða hvaða dagblað sem þig langar í,“ segir Borgar. 

Aðspurður um hvort margir kaupi þessa þjónustu segir Borgar að það sé eitthvað af föstum viðskiptavinum. „Þetta er eitthvað sem við kynntum fyrir nokkrum árum og höfum ekki auglýst mikið. Við erum áskrifendur að blaðabanka sem hægt er að prenta úr.“   

Vinsælustu blöðin séu New York Times í daglegri sölu, dönsku dagblöðin, önnur norræn blöð og svo þýsk og frönsk blöð þar á eftir, segir Borgar. 

„Það eru margir enn að kaupa dagblöð á pappír; þetta er fastahópur,“ segir Borgar. Áður en heimsfaraldurinn skall á hafi það tíðkast að hótel sem áttu von á til dæmis áströlskum hópi, keyptu eintök af áströlskum blöðum til að hafa tiltæk í móttökunni. 

Aðspurður hvort heimsfaraldurinn hafi eitthvað truflað blaðasendingar sem enn koma að utan með flugi segir Borgar þær hafa borist furðu vel. „Þetta hefur sloppið í fluginu en það eru alls konar tilflutningar við að koma þessu heim. Þetta hefur sloppið að mestu í tæka tíð.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV