Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hádegisfréttir: COVID-19 ástandið víða verra en í vor

24.09.2020 - 12:12
Heilbrigðismálastjóri Evrópusambandsins segir að ástandið í sumum aðildarríkjum vegna kórónuveirufaraldursins sé nú verra en þegar hann var í hámarki í vor. Sóttvarnastofnun Evrópu segir ástandið í sjö löndum álfunnar sérstakt áhyggjuefni.

Hádegisfréttir verða sagðar klukkan 12:20.

Þrjátíu og þrjú ný kórónuveirusmit greindust hér á landi í gær. Nítján greindust smitaðir utan sóttkvíar. Einn er á sjúkrahúsi með COVID-19. Um 2.500 manns eru í sóttkví, langflestir á höfuðborgarsvæðinu.

Alls 107 eru nú í sóttkví á Vesturlandi og fjölgar um 14 á milli daga.

Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða, segir að gera þurfi úttekt á sjálfstæði stjórnarmanna í lífeyrissjóðum. Almenningur þurfi að geta treyst því að stjórnir sjóðanna gæti eingöngu hagsmuna sjóðsfélaga.

Forsendunefnd ASÍ og SA reynir í dag að komast að niðurstöðu um hvort forsendur lífskjarasamningsins séu brostnar.

Stjórnvöld senda þau skilaboð að líf og heilsa heimilismanna skipti ekki máli, með því að greiða ekki fyrir þau pláss á hjúkrunarheimilum sem haldið hefur verið tómum í faraldrinum. Þetta segir Gísli Páll Pálsson formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.

Atvinnuleysi mældist 6 prósent í ágúst samkvæmt mælingu Hagstofunnar og hafði  aukist um 1,6 prósentustig frá sama mánuði í fyrra og þrjú og hálft prósentustig frá því fyrir tveimur árum. 

Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi, fékk ekkert fé á fjárlögum vegna mistaka við umsókn um árlegt rekstrarfé. Allt stefnir í lokun og að starfsmenn fari á atvinnuleysisbætur í nóvember og desember.

RIFF-kvikmyndahátíðin hefst í dag, hún mætir nú heim til fólks en allar myndirnar verða sýndar á netinu. 

Hálka og snjókoma hefur sett svip sinn á færð víða um land í morgun, sérstaklega á fjallvegum. Þjónustufulltrúi hjá Vegagerðinni segir færð vera að færast í betra horf.