Gætu þurft að loka Skaftfelli til áramóta vegna mistaka

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Gætu þurft að loka Skaftfelli til áramóta vegna mistaka

24.09.2020 - 12:43

Höfundar

Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi, fékk ekkert fé á fjárlögum vegna mistaka við umsókn um árlegt rekstrarfé. Allt stefnir í lokun og að starfsmenn fari á atvinnuleysisbætur í nóvember og desember.

Skaftfell á Seyðisfirði hefur það hlutverk að halda myndlistarsýningar, skipuleggja fræðsluverkefni og sjá um gestavinnustofur sem yfir 20 listamenn nýta sér á ári. Hanna Cristel Sigurkarlsdóttir er annar tveggja starfsmanna Skaftfells. „Við erum bara í frekar miklum vandræðum akkúrat núna og það stefnir hreinlega í að við þurfum mögulega að loka fyrsta nóvember. Þá eigum við ekki lengur pening til að borga laun. Við erum tveir starfsmenn í 70% starfi. Það er staðreynd að við sjáum ekki fram á að geta greitt okkur laun út árið,“ segir Hanna.

„Mistökin hjá okkur“

Skaftfell fær fimm milljónir frá Seyðisfjarðarkaupstað, aðrar fimm í gegnum sóknaráætlun landshluta og hefur fengið 10-15 milljónir á fjárlögum en ekkert í ár. „Reyndar liggja mistökin hjá okkur.  Fyrrum forstöðumaður hann náði ekki alveg að skilja ferlið þannig að umsóknin var ekki tekin gild. Og við erum enn að bíða eftir svörum,“ segir Hanna von er til þess að Skaftfell fái framlag á aukafjárlögum.

Gætu fengið tap bætt upp á næsta ári

Fyrrum forstöðumaður Gavin Morrisson var ráðinn árið 2018 og tóku þær Hanna Kristel og Julia Martin starfsmenn við stjórnun í ágúst. Hanna gagnrýnir að stofnun eins og Skaftfell sem hafi starfað lengi og áunnið sér tilverurétt þurfi að nota mikinn tíma og orku í að eltast við árlegt rekstrarfé.  Að óbreyttu þurfi Skaftfell að sökkva sér í skuldir eða báðir starfsmenn að sækja um atvinnuleysisbætur í nóvember og desember þangað til tekjur fyrir 2021 koma eftir áramót. „Vonandi getum við þá opnað á nýju ári. Við erum að undirbúa umsókn í fjárlög fyrir næsta ár. En við gerum okkur vonir um að fá pening.“

Tengdar fréttir

Seyðisfjarðarkaupstaður

Myndlist, fræðsla og menning í Skaftfelli

Myndlist

Borga laun í þriðjungi tilfella

Menningarefni

Verk Dieters Roths á Hnallþóru í sólinni