ESB: Ástandið víða verra en í vor

24.09.2020 - 12:11
epa08692859 European Commissioner for Health Stella Kyriakides speaks during a news conference on the updated coronavirus disease (COVID-19) risk assessment, in Brussels, Belgium, 24 September 2020.  EPA-EFE/FRANCOIS LENOIR / POOL
Stella Kyriakides, heilbrigðismálastjóri Evrópusambandsins. Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hvatti í morgun aðildarríki til að útskýra betur fyrir almenningi reglur um fjarlægðarmörk og hreinlæti vegna kórónuveirufaraldursins og framfylgja þeim til að reyna að stöðva nýja bylgju smita. Yfir fimm milljónir hafa greinst smitaðar af kórónuveirunni síðan faraldurinn barst þangað.

Stella Kyriakides, heilbrigðismálastjóri Evrópusambandsins, sagði í morgun að ástandið í sumum aðildarríkjum væri nú verra en þegar faraldurinn hefði verið í hámarki í mars. Það væri verulegt áhyggjuefni. Þau þyrftu að bregðast við þegar í stað eða um leið og fyrstu merki sæjust um nýja bylgju kórónuveirusmita. 

Kyriakides og samstarfsfólk hennar hefur meðal annars það hlutverk að samræma aðgerðir við faraldrinum, en hún benti á að sum ríki hefðu byrjað að slaka á reglum og takmörkunum of snemma. Það þýddi að ráðstafanir sem gerðar hefðu verið hefðu ekki virkað sem skyldi, þeim hefði jafnvel ekki verið framfylgt eða hrundið í framkvæmd.

Ekki mætti slaka á því ekki væri búið að vinna bug á vandanum, ekki síst í ljósi þess að nú væri að hefjast flensutíð og aukin tíðni öndunarfærasjúkdóma. Bregðast yrði skjótt við til að ekki þyrfti að grípa til frekara útgöngubanns eða ferðatakmarkana, sem bitnuðu á efnahag ríkja, menntun og geðheilsu almennings.

Evrópska sóttvarnastofnunin, sem staðsett er í Svíþjóð, lýsti því yfir í morgun að ástandið og þróun kórónuveirufaraldursins í sjö ríkjum álfunnar væru sérstakt áhyggjuefni, í Búlgaríu, Rúmeníu, Króatíu, Ungverjalandi og Tékklandi og einnig á Spáni og Möltu þar sem hlutfall dauðsfalla af COVID-19 færi hækkandi.

 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi