Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Egypsku fjölskyldunni veitt dvalarleyfi: „Mikill sigur“

Mynd: RÚV / RÚV
Kærunefnd útlendingamála hefur fallist á endurupptökubeiðni egypsku fjölskyldunnar sem fjallað hefur verið um í fréttum síðustu daga. Vísa átti fjölskyldunni úr landi 16. september, en hún hefur verið í felum síðan þá. Þau fá nú dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eftir að kærunefndin féllst á sjónarmið fjölskyldunnar.

„Þau geta komið úr felum - þetta mál er unnið. Krakkarnir geta farið aftur í skólann. Þetta eru gríðarlega góð tíðindi og nú heldur lífið áfram hjá þeim,“ segir Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar.

„Þetta er mikill sigur fyrir fjölskylduna og ekki síður mikill sigur fyrir íslenskt samfélag að mínum dómi, og þann samtakamátt sem oft verður til hér. Fjölskyldan kann öllum þeim sem veitti henni stuðning í þessu máli miklar, miklar þakkir,“ segir Magnús.

Telur hann að þrýstingur frá íslensku samfélagi, þar sem brottvísun fjölskyldunnar var harðlega mótmælt, hafi haft áhrif?

„VIð búum í lýðræðisríki og það er eðlilegt að þegar almenningur tekur sig saman og sýnir samtakamátt með þessum hætti að það hafi áhrif. Ég tel að sá þrýstingur hafi skipt máli, já,“ segir Magnús.

Hann segir það hafa verið örþrifaráð hjá fjölskyldunni að fara í felur.

„Á þessu hefur maður fullan skilning. Þetta myndu foreldrar í þessari sömu stöðu gera, en ég trúði því að þetta mál myndi blessast og það hefur gerst hér í dag. Við erum ákaflega ánægð með það,“ segir Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar.