Deildu um yfirlýsingu látinna bræðra frá 1955

24.09.2020 - 13:31
Ísjakar við Grímsárvirkjun. Mynd: Pálmi Hreinn Sigurðsson
 Mynd: Pálmi Hreinn Sigurðsson - RÚV
Yfirlýsing tveggja bræðra frá árinu 1955 og afsal þeirra til Rafmagnsveitna ríkisins fimm árum síðar voru undir í deilu um vatnsréttindi í Grímsá sem rötuðu fyrir dómstóla. Núverandi eigendur jarðarinnar sem bræðurnir áttu töldu að aldrei hefði verið samið um vatnsréttindi og vildu að dómstóllinn úrskurðaði að þau fylgdu jörðinni.

Rafmagnsveitur ríkisins, sem hálfri öld síðar áttu eftir að renna inn í Rarik, undirbjuggu um miðjan sjötta áratug síðustu aldar virkjanagerð í Grímsá í Fljótsdalsheráði. Helmingur vatnsréttinda var milli jarðanna Stóra Sandfells I og Stóra Sandfells II. Bræðurnir Björn og Kristján Guðnasynir áttu Stóra Sandfell II. Þeir skrifuðu undir yfirlýsingu árið 1955 að um að þeir væru fúsir að afsala sér vatnsréttindum til Rafmagnsveitna ríkisins gegn því að fá ákveðið mikið rafmagn sér að kostnaðarlausu upp að húsum sínum. Þremur árum síðar varð virkjunin að veruleika og hefur rafmagnið streymt að jörðinni í takt við yfirlýsingu bræðranna frá þeim tíma. Samkvæmt yfirlýsingunni áttu bræðurnir að fá sex kílówattstundir á mánuði yfir veturinn og níu á mánuði yfir sumarið.

Aldrei var hins vegar gengið frá formlegum vatnsréttarsamningi, heldur aðeins gerður samningur um landsvæði sem fór undir virkjunina og undir vatn. Bræðurnir féllu frá 1970 og 1976 en áfram stóð virkjunin á sínum stað og rafmagn var afhent í takt við yfirlýsingu þeirra.

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur.

Þar við sat til ársins 2008. Þá voru Rafmagnsveitur ríkisins orðnar að opinbera hlutafélaginu Rarik og tekið höfðu gildi ný lög um framleiðslu og dreifingu rafmagns. Orkusalan, dótturfélag Rarik, vildi þá breyta forminu sem hafði gilt í hálfa öld á afhendingu rafmagns sem greiðslu fyrir vatnsréttindi. Orkusalan bauð eingreiðslu fyrir vatnsréttindin en kvaðst ella myndu rukka samkvæmt gjaldskrá fyrir orkunotkun umfram tæpar 40 kílówattstundir á ári. Þessu svöruðu jarðeigendur ekki í fyrstu en andmæltu svo þegar tilkynnt var að gjaldtakan hæfist. Það leiddi til bréfaskipta og mál nágrannabæjarins, Stóra Sandfells I fór fyrir dómstóla 2012.

Nýtilkomin krafa

Í fyrra kröfðust eigendur Stóra Sandfells II þess svo að dómstólar dæmdu að vatnsréttindin fylgdu jörðinni en væru ekki eign Rarik. Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur hafnaði þessu í gær. Sagði að þeir bræður Kristján og Björn hefðu aldrei andmælt því í lifanda lífi svo vitað væri að vatnsréttindin væru eign Rafmagnsveitnanna. Þótt svo ekki hefði verið gengið frá skriflegum samningi um slíkt mætti ráða af yfirlýsingu þeirra og því að þeir hefðu fengið raforku í samræmi við hana að vatnsréttindin væru eign Rarik. Að auki tiltók dómstóllinn að deila núverandi eigenda og Rarik hefði í upphafi aðeins snúist um rafmagnsverð en eignarhald á vatnsréttindum hefði ekki verið umdeilt fyrr en í fyrra. Þá voru ellefu ár liðin frá því deilurnar hófust og rúm 60 ár frá því virkjunin varð að veruleika.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi