Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Blikasigur: „Verður að reyna að halda jafnvægi“

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Blikasigur: „Verður að reyna að halda jafnvægi“

24.09.2020 - 22:00
Breiðablik sigraði Stjörnuna, 2-1 í Pepsi Max deild karla í fótbolta í kvöld og Fylkir vann Víking líka 2-1.

Breiðablik hafði tapað þremur leikjum í röð í deild og bikar fyrir leikinn í kvöld. Sigurinn var því kærkominn fyrir Breiðablik sem er í 3. sæti deildarinnar með 26 stig. Thomas Mikkelsen skoraði sigurmark Breiðabliks úr vítaspyrnu í seinni hálfleik en áður hafði Alex Þór Hauksson komið Stjörnunni yfir í leiknum og Viktor Karl Einarsson jafnað fyrir Blika.

„Ég held nú að margir aðrir en við hafi haft áhyggjur af spilamennskunni og stigasöfnun undanfarinna leikja. Það er þannig í þessu að maður verður að reyna að halda einhverju jafnvægi að verða ekki ofsa kátur þegar sigrar vinna og heldur ekki detta niður í eitthvað hyldýpi þunglyndis þegar blæs á móti. En það segir sig sjálft samt að það er betra vinna leiki en að tapa þeim. Ég skal vera fyrsti maður til að viðurkenna það,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson við RÚV eftir leikinn í kvöld.

Viðtalið við Óskar Hrafn má sjá í spilaranum hér fyrir neðan. RÚV fékk ekki viðtöl við þjálfara Stjörnunnar eftir leik.

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Stjarnan hefur 24 stig í 6. sæti eftir leikinn, en á þó leik til góða á Breiðablik og tvo leiki til góða á mörg önnur lið.

Fylkir í 4. sæti en Víkingur í 10. sæti

Orri Sveinn Stefánsson skoraði sigurmark Fylkis í 2-1 sigri á Víkingi í kvöld. Ásgeir Eyþórsson hafði komið Árbæingum yfir á 27. mínútu en Kristall Máni Ingason jafnaði fyrir Víking á 68. mínútu.

Fylkir er í 4. sæti deildarinnar með 25 stig eftir 16 leiki. Víkingur sem gaf það út fyrir mót að liðið ætlaði að berjast um Íslandsmeistaratitilinn er hins vegar í 10. sæti deildarinnar með 15 stig úr 15 leikjum og aðeins unnið þrjá deildarleiki í ár.