Birkir Már með tvö og Valur í vænlegri stöðu

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Birkir Már með tvö og Valur í vænlegri stöðu

24.09.2020 - 18:08
Valsmenn komu sér svo sannarlega í vænlega stöðu í baráttunni um Íslandsmeistaratitil karla í fótbolta þegar Valur vann 4-1 útisigur á FH. Valur hefur nú ellefu stiga forskot á toppi Pepsi Max deildarinnar þegar liðið á eftir að spila sex leiki. Birkir Már Sævarsson skoraði tvö mörk fyrir Val í leiknum.

Valsmenn komust yfir á 19. mínútu með marki Birkis Más Sævarsson sem skoraði með skalla af stuttu færi eftir snarpa sókn Valsmanna. Stuttu áður hafði Eiður Aron Sigurbjörnsson varnarmaður Vals handleikið knöttinn innan vítateigs en dómari leiksins lét það óátalið. Valsmenn voru mun betri og Patrick Pedersen jók forskot Vals í 2-0 eftir lipra sókn á 40. mínútu.

FH-ingar gáfust þó ekki upp og Steven Lennon minnkaði muninn fyrir FH í 2-1 með góðri afgreiðslu á 42. mínútu. Valsmenn komu hins vegar öflugir inn í seinni hálfleikinn og Birkir Már Sævarsson skoraði sitt annað mark í leiknum þegar hann kom Val í 3-1 á 47. mínútu. Þriðja mark Birkis Más í síðustu tveimur leikjum. FH-ingar urðu svo manni færri á 58. mínútu þegar Guðmann Þórisson fékk rautt spjald fyrir brot á Lasse Petry.

Valsmenn fengu svo vítaspyrnu á 65. mínútu eftir að Guðmundur Kristjánsson hafði handleikið knöttinn innan teigs. Kristinn Freyr Sigurðsson skoraði úr vítinu og kom Val í 4-1.

Valur hefur nú 40 stig í efsta sæti deildarinnar, ellefu stigum meira en FH sem er í 2. sæti. FH á þó reyndar leik til góða á Val. En staða Vals er svo sannarlega vænleg þegar liðið á eftir að spila sex leiki í deildinni.

Tíu Gróttumenn komust yfir á móti KR

Nágrannaliðin KR og Grótta mættust í sinni fyrstu viðureign í efstu deild í dag. Liðin skildu jöfn 1-1. Karl Friðleifur Gunnarsson skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Gróttu á 58. mínútu. Þá voru aðeins tíu Seltirningar eftir á vellinum eftir að Sigurvin Reynisson fékk rautt spjald í lok fyrri hálfleiks. Guðmundur Steinarsson aðstoðarþjálfari Gróttu fékk reyndar rautt spjald líka í kjölfarið fyrir mótmæli.

Pablo Punyed jafnaði hins vegar metin fyrir KR-inga þegar 20 mínútur lifðu leiks. Hvorugu liði tókst þó að skora sigurmark og 1-1 jafntefli urðu úrslit leiksins.

Tíunda jafntefli KA

KA og HK áttust við á Akureyri í leik sem lauk með 1-1 jafntefli. Arnþór Ari Atlason kom HK yfir á 26. mínútu en Almarr Ormarsson jafnaði metin fyrir KA með marki á 80. mínútu. Þetta var tíunda jafntefli KA í deildinni í ár. KA hefur nú 16 stig en HK 19 stig.

ÍA vann botnlið Fjölnis svo 3-1. Stefán Teitur Þórðarson skoraði fyrra mark leiksins fyrir Skagamenn á 16. mínútu. Tryggvi Hrafn Haraldsson jók svo muninn þegar hann skoraði sjö mínútum fyrir leikslok. Áður en leiknum lauk hafði þó Guðmundur Karl Guðmundsson minnkað muninn fyrir Fjölni í 2-1. Tryggvi Hrafn gulltryggði hins vegar sigur ÍA þegar hann skoraði í uppbótartíma. Skagamenn unnu leikinn 3-1.

Umferðinni lýkur í kvöld með tveimur leikjum sem báðir hefjast klukkan 19:15. Breiðablik tekur á móti Stjörnunni og Fylkir fær Víking í heimsókn.