Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bar veiruna líklega frá Íslandi til Kanarí

24.09.2020 - 17:45
epa08602988 Several people walk along an avenue in the first day of taking effect the regional rule for banning smoking on the streets, if safety distance can not be kept, to try to stop the spreading of coronavirus in Las Palmas de Gran Canaria, Canary Islands, Spain, 14 August 2020. Central government just reached an agreement with all regional authorities to close all night clubs and band smoking on the streets, if safety distance can not be kept, to try to stop the spreading of coronavirus after it was reported some 3,000 new COVID-19 virus disease cases in last 24 hours.  EPA-EFE/Angel Medina G.
 Mynd: EPA
Tveir íslenskir karlar eru á gjörgæslu á Gran Canaria, stærstu eyju Kanarí-eyja, með COVID-19. Báðir voru lagðir inn á sjúkrahús með önnur vandamál en COVID-19 og greindust við innlögnina.

Annar þeirra var lagður inn á sjúkrahús með lungnabólgu á föstudaginn. Hann hafði ekki verið á Kanarí nema í fjóra daga þegar hann var lagður inn og greindur með kórónuveirusmit. „Það eru vísbendingar um að hann hafi borið veiruna með sér frá Íslandi,“ segir Einar Logi Einarsson sem er vel kunnugur á Kanarí.

„Það er ólíklegt að hann hafi smitast á staðnum, því hann veiktist á fjórða degi með mikla lungnabólgu,“ segir Einar Logi. Hinn karlinn var lagður inn á sjúkrahús eftir að hafa fengið hjartaáfall. Þeir eru báðir yfir sextugt.

Þétt Íslendingasamfélag

Einar Logi starfaði í um áratug sem túlkur á heilsugæslustöð á Kanarí. Hann flyst vanalega til Kanarí á veturna en vegna ástandsins hér og þar hefur hann ekki enn flogið út. Einar Logi hefur safnað upplýsingum um Íslendinga á Kanarí undanfarna daga og komið leiðbeiningum áleiðis til þeirra Íslendinga sem þar dvelja nú.

Hann telur að á annað hundrað Íslendingar séu á Kanarí sem stendur. Það eru heldur færri en væru þar á haustin undir venjulegum kringumstæðum, vegna heimsfaraldursins. Einar Logi segir að þetta sé í flestu tilfellum eldra fólk. „Fólk með öndunarfærasjúkdóma sækir til Kanarí vegna góðs loftslags og hitans. Það er ekki of rakt og ekki of þurrt,“ segir Einar Logi.

Flestir komnir í sóttkví

Spurður út í þau tilmæli og sóttvarnaráðstafanir sem gerðar hafa verið á Kanarí-eyjum segir Einar Logi flesta Íslendinga gæta sín. Hann segir smitrakningar ekki vera eins ítarlegar og á Íslandi. Út frá hverju smiti er aðeins nánasti hringur þess smitaða kannaður og hverja hann umgekkst sólarhringana tvo á undan. Ef það finnast svo smit í þeim hópi er rakið víðar út frá þeim. „Eins og er þá virðist ekki hafa fundist neitt smit í þessum hópi,“ segir Einar Logi um Íslendingasamfélagið.

„Íslendingasamfélagið er í rauninni það lítið og þétt að það gæti borist milli Íslendinga ef það væri rjúkandi smit,“ segir Einar Logi. „Mér heyrist að fólk sé að fylgja tilmælum um sóttkví nema einhver einn sem vildi það ekki.“