
Banki greiðir milljarðasekt vegna peningaþvættis
Sektarupphæðin var ákveðin í samkomulagi við fjármálaeftirlit Ástralíu og bíður nú samþykkis dómstóls. Fjármálaeftirlitið segir sektina endurspegla alvarleika og umfang brotanna. Eftirlitið birti ásakanir gegn Westpac í nóvember í fyrra. Þar var bankinn sakaður um 23 milljónir brota gegn lögum um peningaþvætti og hryðjuverkastarfsemi, að sögn AFP fréttastofunnar. Alls er talið að jafnvirði sjö milljarða bandaríkjadala hafi farið í gegnum bankann, jafnvirði ríflega 970 milljarða króna.
Stjórnendur bankans eru meðal annars sakaðir um að hafa vísvitandi litið framhjá sönnunum sem sýndu að hluti peninganna var notaður til þess að fjármagna barnaþrælkun. Fjármálaeftirlitið segir bankanna hafa vitað af miklum fjölda smárra millifærslna til Suðaustur-Asíu frá árinu 2013 og verið greint sérstaklega frá áhættunni sem fylgdi einni greiðslulínunni í júní 2016.
Þegar fjármálaeftirlitið birti ásakanirnar lét Brian Hartzer af störfum sem framkvæmdastjóri. King tók við, en hann gegndi áður stöðu fjármálastjóra. Stjórnarformaðurinn Lindsay Maxsted lét einnig af störfum. King segir bankann búinn að efla eftirlit með glæpsamlegum millifærslum og gripið til aðgerða til þess að breyta menningu, stjórnun og ábyrgð innan vinnustaðarins.