Áskorun að halda RIFF í núverandi árferði

Mynd: Thomas Vinterberg / Einn til

Áskorun að halda RIFF í núverandi árferði

24.09.2020 - 12:54

Höfundar

Það eru ýmsar hindranir í vegi fyrir því að halda alþjóðlega kvikmyndahátíð eins og RIFF í miðjum heimsfaraldri, að sögn Maríu Ólafsdóttur fjölmiðlafulltrúa. Aðstandendur þurftu meðal annars að sleppa öllum hátíðlegum athöfnum, selja færri sæti í salina og flytja hluta hátíðarinnar yfir á internetið.

Hátíðin verður sett í dag þegar myndin Þriðji Póllinn verður frumsýnd í tveimur sölum í Háskólabíói, til að gæta smitvarna. „Það er vissulega nokkur áskorun að halda hátíð eins og RIFF á þessum tímum. Það sem við gerum er að sýna myndir í bíó, en takmörkum okkur við eina sýningu á mynd og færri sæti, og með þann möguleika að horfa á heima. Þú getur farið á vefinn okkur og leigt mynd og horft á heima í stofu,“ segir María Ólafsdóttir fjölmiðlafulltrúi RIFF. 

Þá er líka hægt að leigja nokkrar myndir í pakka, og fólk hefur um viku til að horfa heima. Hátíðin notast við sama vefkerfi og margar stærstu kvikmyndahátíðir í heimi hafa tekið upp í COVID-ástandinu og það hefur að sögn Maríu reynst svo vel að áhöld eru uppi um að hafa þessar heimasýningar hluta af hátíðunum í framtíðinni. „Við erum mjög ánægð með það að geta fært okkar kvikmyndir til Íslendinga um allt landið, eldra fólk, fólk úti á sjó, og þeir sem ekki eiga heimangengt geta þá notið hátíðarinnar líka.“ Þau hrinda líka úr vör á hátíðinni í ár svokölluðum bíóbíl sem keyrði um landsbyggðina. „Við vorum með sýningar fyrir krakka í skólum, og svo var hægt að horfa á Dancer in the Dark um kvöldið. Það er strax farið að biðja aftur um bílinn á næsta ári.“

María segir RIFF leggja áherslu á nýjar gæða kvikmyndir og margar þeirra sem nú eru í sýningu hafa áður verið á Cannes, San Sebastian og öðrum virtustu hátíðum í bransanum. „Dagskráin í ár hefur aldrei verið jafn fjölbreytt. Það var kannski lögð áhersla á í ljósi ástandsins aðeins „léttari“ myndir í og með heldur en áður. Það eru gamanmyndir, heimildarmyndir og myndir sem snerta á því sem er efst á baugi í samfélaginu.“ Þá eru frumsýndar íslenskar myndir á hátíðinni, þar á meðal Þriðji póllinn sem er opnunarmyndin, Sirkússtjórinn, Húsmæðraskólinn og á morgun verður sýnd A Song Called Hate sem fjallar um ferð Hatara í Eurovision á síðasta ári.

Ein myndanna sem sýnd verður á hátíðinni er Einn til eftir danska leikstjórann Thomas Vinterberg, og svo verður Nomads Land eftir hinn kínverska Chloe Zhao á dagskrá, en hún hlaut aðalverðlaunin gullna ljónið á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. „Hún verður eingöngu sýnd í Bíó Paradís. Svo verðum við með dagskrá í Norræna húsinu, barnadagskrá, stuttmyndir og bransadagar fara þar fram.“ Þá verður líka risastórt bílabíó á vegum hátíðarinnar úti á Granda þar sem Hárið verður sýnt annað kvöld. Hátíðin verður sett í dag og María segir að gætt verði að ítrustu sóttvarnareglum. „Það verður ekkert húllumhæ. Bara horft á mynd, það er náttúrulega það sem er mikilvægast.“

Hulda Geirsdóttir ræddi við Maríu Ólafsdóttur í Morgunútvarpinu.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

RIFF verður á netinu: „Fólk þarf afþreyingu“

Kvikmyndir

Þriðji póllinn er opnunarmynd RIFF

Kvikmyndir

Bogi í brúðulíki í eldhúsi Svövu Jakobsdóttur

Kvikmyndir

RIFF verður að miklu leyti rafræn kvikmyndahátíð