Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ætla að koma til móts við hjúkrunarheimilin

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórnvöld ætla að koma til móts við þau hjúkrunarheimili sem hafa þurft að standa straum af aukakostnaði vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta kemur fram í svörum frá Sjúkratryggingum Íslands. Fullyrðingar formanns Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu um málið séu ekki réttar.

Sjúkratryggingar Íslands greiða hjúkrunarheimilum daggjöld fyrir heimilismenn á þeim stofnunum sem ekki eru á föstum fjárlögum. Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á ákváðu flest hjúkrunarheimilin að taka ekki inn nýja einstaklinga, meðal annars til að hafa pláss fyrir einangraða COVID-deild ef smit kæmi upp.

„Lítilsvirðing“

Gísli Páll Pálsson, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, segir að nú hafi þau svör borist að ríkið ætli að svo stöddu ekki að greiða daggjöld vegna þessara plássa.

„Og við í einfeldni okkar gerðum ráð fyrir að við fengjum þetta greitt því við vorum þarna að bregðast við alvarlegu ástandi. En nú er komið í ljós að Sjúkratryggingar hafa fengið þau svör frá ráðuneytinu, ráðuneytið virðist stjórna Sjúkratryggingum, að þeir ætli ekki að greiða þetta fyrr en í fyrsta lagi í byrjun næsta árs,“ segir Gísli Páll í samtali við fréttastofu.

Hvað eru þetta miklir peningar?

„Þetta eru á milli 100 og 200 milljónir. Og fyrir heimili sem eiga varla fyrir rekstrinum í dag, þá munar um hverja krónu. Og mér finnst líka prinsippið svo alvarlegt, að gefa ekki mikið fyrir það að við séum að undirbúa okkur og gera ráð fyrir að fá smit. Mér finnst þetta svo mikil lítilsvirðing gagnvart þeim sem eru að reka þessi heimili og gagnvart þeim sem búa þarna.“

Gísli Páll segir að jafnvel þótt plássum hafi verið haldið tómum, hafi starfsmannafjöldinn á heimilunum verið sá sami, og kostnaðurinn því einnig sá sami.

„Eins og ég segi í grein minni í Mogganum í dag finnst mér skilaboðin vera skýr að líf og heilsa heimilismanna á hjúkrunarheimilum, að það skipti bara engu máli.“

„Varla skýr skilaboð“

Í skriflegu svari Sjúkratrygginga Íslands við fyrirspurn fréttastofu segir að fullyrðingar Gísla Páls séu ekki réttar. Fyrirspurn hafi borist frá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu 1. september sem hafi verið svarað daginn eftir. Í því svari hafi meðal annars komið fram að stjórnvöld hafi lýst vilja til að koma til móts við veitendur heilbrigðisþjónustu, þar sem sýnt er fram á neikvæða rekstrarniðurstöðu vegna COVID. Stjórnvöld hafi þegar kallað eftir gögnum um umframkostnað vegna COVID og rekstrarstöðu hjúkrunarheimila, og að þau verði nýtt við þá vinnu.

„Stjórnvöld hafa lýst vilja til að koma til móts við hjúkrunarheimilin og það er verið að vinna í því að greina aukakostnað vegna covid.  Horft verður til fyrstu 9 mánaða ársins. Það eru því varla skýr skilaboð frá ráðuneytinu um að líf heimilisfólks skipti ekki máli,“ segir í svari Sjúkratrygginga Íslands við fyrirspurn fréttastofu.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV