Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

33 ný innanlandssmit – ríflega tvö þúsund sýni greind

24.09.2020 - 11:00
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
33 ný kórónuveirusmit greindust hér á landi í gær. 14 þeirra voru í sóttkví við geiningu, eða tæplega helmingur nýrra smita. 30 smit greindust á landspítalanum og þrjú hjá Íslenskri erfðagreiningu. Einn er á sjúkrahúsi með COVID-19.

Nú eru 352 í einangrun með COVID-19. Nýgengi innanlandssmita heldur áfram að hækka og er nú 91,1 smit. Með nýgengi er átt við uppsafnaðan fjölda smita síðustu 14 daga á hverja 100.000 íbúa. Nýgengi landamærasmita heldur áfram að lækka er nú 4,1 smit.

Fjögur smit greindust á landamærunum í gær og bíða allir ferðalangarnir mótefnamælingar. Hún mun skera úr um hvort smitin séu virk eður ei. 860 sýni voru greind úr landamæraskimun í gær.

2.073 sýni voru greind úr innanlandsskimun í gær, sem eru mun færri sýni en greind voru í fyrradag. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að það hafi verið viðbúið, enda anni heilbrigðiskerfið ekki svo mörgum sýnum á dag nema stöku sinnum.

Um það bil þriðjungur þeirra sem eru í einangrun hér á landi með COVID-19 eru á aldrinum 18-29 ára. Þetta er svipað hlutfall og síðustu daga. Næst fjölmennasti aldurshópurinn með smit er fólk á fertugsaldri.

Almannavarnir hafa boðað til upplýsingafundar klukkan tvö í dag. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Alma Möller landlæknir ræða þar stöðu faraldurins hér á landi og svara spurningum fjölmiðla. Fundurinn verður venju samkvæmt í beinni útsendingu í sjónvarpinu, á vefnum og í útvarpi.