Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

220 sjöundu bekkingar í sóttkví og taka próf í október

24.09.2020 - 09:49
Skólabörn
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
Kórónuveirufaraldurinn setur mark sitt á samræmd próf í 7. bekk sem fara fram í dag og á morgun. Af um 4.300 nemendum sem þreyta próf í íslensku í dag eru 220 í sóttkví. Nemendur í sóttkví bíða með próftökuna fram til 12. og 13.október hver í sínum skóla.

Nemendurnir sem eru í sóttkví dreifast á fimm skóla sem allir eru í Reykjavík, segir Sverrir Óskarsson, sviðsstjóri matssviðs hjá Menntamálastofnun.

Próftakan gangi vel. „Við erum mjög glöð og róleg yfir þessu og þetta kemur miklu betur út en við áttum von á,“ segir Sverrir, en um 1.100 nemendur höfðu þegar lokið prófinu klukkan 9:30 í morgun. 

Samræmd próf eru í 155 skólum um land allt í dag og geta skólastjórnendum lagt prófið fyrir nemendur sína á milli klukkan átta og fimm í dag.

„Hver skóli útfærir próftökuna í sínum skóla. Þetta er sveigjanleiki sem var tekinn upp í fyrra og hefur mælst vel fyrir; að hafa svigrúm innan dagsins til að ákveða hvenær próftakan á sér stað,“ segir Sverrir. Próftíminn er 40 til 50 mínútur og sama framkvæmd verður á morgun þegar samræmt próf í stærðfræði verður lagt fyrir. 

Í næstu viku eru samræmd próf í 4. bekk. „Einn skóli verður í sóttkví í næstu viku og viðbúið að þeir verði tveir til þrír í viðbót,“ segir Sverrir. „Einn skóli var að fara í sóttkví í gær, Dalskóli, og við vitum ekki hvort svo verði í næstu viku. Við tökum stöðuna á mánudag,“ segir Sverrir. Erfitt sé að spá of langt fram í tímann.  

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV