Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

166 konur þurfa í skoðun og enn þriðjungur sýna eftir

Úr umfjöllun Kveiks um krabbameinsskimun.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Krabbameinsfélagið hefur endurskoðað 4.000 sýni vegna mistaka sem komu upp á leitarstöð félagsins. Alls á að endurskoða sex þúsund sýni, en nú þegar er komið í ljós að kalla þarf 166 konur aftur inn til nánari skoðunar. Þeim á því líklega eftir að fjölga og verða fleiri en reiknað var með.

Í síðustu viku var búið að endurskoða 3.300 sýni, og af þeim þurftu 108 konur að koma til frekari skoðunar. Þá var búið að endurskoða 800 sýni frá vikunni á undan og 43 sem þurftu að koma til frekari skoðunar, eða 5,4% hlutfall.

Nú milli vikna voru endurskoðuð 700 sýni, en 58 konur sem þurfa nánari skoðun. Það er um 8,3% hlutfall. Fyrir fram var búið að áætla að 100-150 konur þyrfti að kalla inn af þessum 6.000.

Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir og sviðsstjóri leitarsviðs, sagði við fyrirspurn fréttastofu í síðustu viku vegna þessa háa hlutfalls að fyrstu tölur hafi bent til þess að hafa þyrfti samband við um 2,5% af þessum sex þúsund konum þar sem sýni voru endurskoðuð. Nú sé hins vegar reiknað með að 3,3% kvenna þurfi í nánari skoðun, eða um 200 konur.

Eins og staðan er nú er hlutfallið um 4,15% miðað við fjögur þúsund sýni og 166 konur sem þurfa í frekari skoðun.