Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vilja afnema skyldu til að taka á móti flóttafólki

23.09.2020 - 18:51
epa08682486 A small boy jumps in the air at Kara Tepe camp on Lesbos island, Greece, 19 September 2020. Following the catastrophic fires at Moria on September 8 and 9, a total of 9,000 people were rehoused at the hotspot of Kara Tepe, south of Mytilini. All of them have been identified and their asylum applications are in process. Of them, 213 were found positive to the novel coronavirus and have been quarantined at separate quarters in the hotspot.  EPA-EFE/VANGELIS PAPANTONIS
 Mynd: EPA-EFE - ANA-MPA
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins leggur til að ríkjum sambandsins verði ekki lengur skylt að taka á móti tilteknum fjölda flóttafólks. Tillagan er hluti af stefnumótun í flóttamanna- og fólksflutningamálefnum sambandsins.

Engir kvótaflóttamenn en styrkur vegna verndar

Samkvæmt tillögunni verður ríkjum í sjálfsvald sett hvort þau taki á móti fólki á flótta og veiti því alþjóðlega vernd eða hafni umsóknum fólks og sjái þá um að flytja það aftur til heimalandsins. Til þess að skapa hvata fyrir ríki til að veita fólki alþjóðlega vernd fá þau 10.000 evrur úr sjóðum Evrópusambandsins fyrir hvern flóttamann sem fær vernd. Það jafngildir rúmlega 1,6 milljónum íslenskra króna. 

Málefni flóttamanna hafa verið umdeild innan Evrópusambandsins frá árinu 2015 þegar ríkjunum var útdeildur tiltekinn fjöldi kvótaflóttamanna sem þeim bar að taka á móti. Pólland og Ungverjaland eru meðal þeirra ríkja sem lögðust hvað harðast gegn þeim breytingum og neituðu að taka við flóttamönnum. 

Skiptar skoðanir á tillögunni

Oxfam-samtökin saka nú Evrópusambandið um að láta undan þrýstingi frá ríkjum sem berjast gegn því að flóttamenn eigi kost á alþjóðlegri vernd í Evrópu. 

Enn er óljóst hvernig tillögunni verður tekið í aðildarríkjunum. Horst Seehofer, innanríkisráðherra Þýskalands, hefur sagt að tillagan sé „góður grundvöllur til umræðu“ enda ríki nú „óstjórn á stefnu Evrópusambandsins í fólksflutningum“. Grísk yfirvöld hafa tekið tillögunni vel og sagt hana skapa sanngjarnt jafnvægi milli „ábyrgðar og samstöðu“. 

Framkvæmdastjórnin hefur gefið það út að breytingunum sé ætlað að draga úr álagi á þau ríki sem eru í framlínu í málefnum flóttafólks, en í breska blaðinu Guardian er fjallað um að áhrifin á ríki á borð við Ítalíu, Grikkland og Spán séu þó umdeilanleg, enda beri þau áfram ábyrgð á að afgreiða langflestar umsóknir um vernd.