Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Vikan hefur kennt okkur að veiran er ekki fyrirsjáanleg

23.09.2020 - 20:09
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Hafi síðasta vika kennt okkur eitthvað um kórónuveiru er það að hún er ekki fyrirsjáanleg, segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Þó að skiljanlegt sé að kallað sé eftir lengri tíma áætlunum þá verður að taka ákvarðanir um aðgerðir miðað við upplýsingar sem breytast jafnvel daglega. Í gær greindust 57 ný kórónuveirusmit, tekin voru rúmlega fimm þúsund sýni og um helmingur þeirra sem greindust var í sóttkví.

Reyndar er það svo að á fimmta þúsund eru komnir í sóttkví. Tveir eru á sjúkrahúsi með COVID-19 eins og verið hefur síðustu daga. Frá því í lok síðustu viku hefur á þriðja hundrað smita greinst og sá fjöldi kemur Víði ekki á óvart.

Þéttriðnara net fangar fleiri

Hann segir í sjálfu sér jákvætt að þeir sem hafa smitast greinist og séu þá settir í einangrun og dreifi ekki smiti frekar. Metfjöldi sýna var tekinn í gær og þegar sett er út þéttriðið net finnist fleiri. Ekki sé hægt að fullyrða um þróunina út frá einstökum dögum og ekki útséð um hvert álagið verður á heilbrigðiskerfið. Í vor hafi fólk verið að veikjast fimm, sex dögum eftir að fyrstu einkenni komu fram eða það greindist jákvætt. 

Námsmenn geta skekkt myndina svo smit virðist útbreiddara úti á landi en það er

Gögn Almannavarna um þá sem smitast birtast eftir lögheimilum viðkomandi. Meðalaldur þeirra sem hafa greinst í þessari bylgju er töluvert lægri en í þeim fyrri. Háskólanemar sem búa í Reykjavík en hafa lögheimili úti á landi eru því skráðir í þeim landshluta. 

Sóttvarnaaðgerðir verður sífellt að endurskoða

Margir hafa kvartað undan því að erfitt sé að vita ekki hvert stefnir fram í tímann. Það kemur þeim sem hrærast í síkvikum veruleika veirunnar nokkuð spánkt fyrir sjónir, því oft séu að berast nýjar upplýsingar á hverjum degi. Það sé vissulega skiljanlegt að það sé erfitt að geta ekki skipulagt mál lengra fram í tímann en hafi mönnum lærst eitthvað síðustu vikuna þá sé það að veiran er ekkert sérstaklega fyrirsjáanleg. Víðir býst við því að ríkisstjórnin fjalli um sóttvarnaaðgerðir ekki síðar en á föstudag því núverandi reglur gilda til sunnudags.