Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Við komum hingað sjálf í erindaleysu“

Mynd: Bjarni Harðarson / Bjarni Harðarson

„Við komum hingað sjálf í erindaleysu“

23.09.2020 - 10:35

Höfundar

Bjarni Harðarson, fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins, segir að við sem búum við allsnægtir á Íslandi getum ekki fyrirgefið okkur að loka dyrum á fólk sem er á flótta. Hann gaf nýverið út þriðju bók sína í þríleik um Skálholt 18. aldar og segir að við megum til með að taka forfeður og -mæður okkar til fyrirmyndar sem buðu hjálparhönd og deildu með þeim sem þurftu, jafnvel þó þau byggju sjálf við vosbúð.

Bjarni Harðarson bóksali, rithöfundur og útgefandi hefur oft þurft að henda bókum og það segir hann hafa verið sérstaklega erfitt til að byrja með. „Sem ungur maður var ég einu sinni í mánuð úti í Drangey að drepa lunda. Vinur minn hafði ætlað að fara en hann komst ekki út af barneignum og fékk mig til að fara fyrir sig,“ rifjar hann upp í samtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1. „Ég var lélegur veiðimaður og ég man hvað mér fannst ofboðslega erfitt að snúa fyrsta fuglinn en svo komst það upp í vana. Þetta var eins með bækurnar, ég átti ofsalega erfitt með að henda bókum fyrst en svo komst þetta upp í vana.“

Langar að búa í bókabúð í París með búðarkettinum

Bjarni og kona hans Elín Gunnlaugsdóttir tónskáld hafa nú verið saman í rúma þrjá áratugi en þekkst meirihluta ævinnar. „Maður talar ekki um þetta því maður er bara 25 ára sjálfur,“ segir Bjarni sposkur um áratugina þrjá. „En ég hef þekkt hana alla tíð því við erum alin upp í sama þorpinu í Biskupstungum. Svo hittumst við aftur í Þjóðleikhúskjallaranum og byrjuðum búskap.“ Og þau eru bæði áhugafólk um bækur og bókabúðir og reka kaffihúsið, bókabúðina og útgáfuna saman. Nýverið færðu þau út kvíarnar og opnuðu útibú bókabúðarinnar í Ármúlanum. Innblástur fyrir búðina hafa þau meðal annars fundið í hinni margrómuðu bókabúð Shakespeare and company sem er staðsett í París þar sem Elín dvelur gjarnan við tónsmíðar. Bjarni er reyndar svo hrifinn af þeirri búð að hann hefur látið sig dreyma um að starfa þar. „Ég hef verið mjög skotinn í þeim draumi að verða þar sjálfboðaliði og búa í búðinni með búðarkettinum. Þar er sófi og þar býr fólk sem hjálpar til,“ segir Bjarni sem viðurkennir að draumurinn muni líklegast halda áfram að vera aðeins draumur, að minnsta kosti um skeið. „En það er svo gott að eiga drauma. Maður þarf ekki að hlaupa til og láta þá rætast og þeir þurfa ekki að rætast á morgun.“

Sagði sig úr þjóðkirkjunni og lagði trúnað við Stalín

Útgáfustarfsemi Bjarna hófst þegar hann starfaði í blaðaútgáfu og gaf út Bændablaðið og Sunnlenska fréttablaðið. Hann stofnaði svo afleggjara úr blaðaútgáfunni sem varð að bókaútgáfunni sem hann segir hafa vaxið mikið síðustu tólf árin, og nú gefur hann út fjölda bóka árlega, bæði eftir sig en líka aðra. Og að mörgu leyti er einfaldara finnst honum að hreykja sér af útgefnum bókum eftir aðra höfunda en sínum eigin. „Ég á reyndar miklu auðveldara með að ota fram bókum annarra en mér finnst leiðinlegt að ota fram minni eigin,“ segir Bjarni og að ástæður þess megi rekja til sunnlensks uppruna síns. „Við erum hæverskir og leggjum ekki í vana okkar að trana okkur mikið fram.“ En þrátt fyrir hæverskuna sem þar tíðkaðist var gaman að alast upp rétt hjá Skálholti í Biskupstungum. „Ég ólst upp í landnemaþorpi því þarna kom fólk alls staðar að en fæstir voru upprunnir í sveitinni. En þetta var magnað samfélag,“ segir hann. Og hann minnist prestsins í Skálholti, Guðmundar Óla Ólafssonar, með mikilli hlýju þó hann hafi verið umdeildur. „Stundum þegar ég var orðinn unglingur sá ég að honum var lýst sem ofsatrúarmanni í fjölmiðlum. Hann var sannarlega heittrúaður og það gat heyrst í honum rödd hins reiða Guðs sem ríkti í kirkjunni til forna, en fyrst og fremst var þetta mikill vinur minn og magnaður maður.“

Kynnti Bjarna sem fyrrum sóknarbarn sitt

Á menntaskólaárunum kveðst Bjarni hafa gengist byltingunni á hönd. Hann varð stalínisti og gekk úr þjóðkirkjunni „með einu símtali til Hagstofunnar þar sem ég þurfti að beita sannfæringu minni við símastúlkuna til að fá hana til að strika mig út.“ Bjarni var aldrei viss um að honum hefði orðið að ósk sinni fyrr en hann hitti Guðmund Óla prest um ári síðar. „Ég var sendur erinda til prestshjónanna og þegar ég er að fara eru að koma í hús konur. Guðmundur Óli kynnir okkur og segir mér deili á konunum en segir svo við þær: Þetta er Bjarni Harðarson sóknarbarn mitt, eða fyrrverandi sóknarbarn. Svo hló hann pínulítið en við ræddum þetta aldrei meir,“ segir Bjarni.

Allir menn eru sósíalistar þó þeir átti sig ekki á því

Trúnað lögðu Bjarni og byltingarfélagar hans á menn eins og Stalín, Kim Il-Sung og Pol Pot. „Þetta voru góðu mennirnir í heiminum,“ segir Bjarni. Það fóru þó að renna tvær grímur á Bjarna og hann fór að efast um heilindi sinna fyrrum átrúnaðargoða þegar hann var um átján ára. „En ég er samt sósíalisti. Ég trúi því að við séum á rangri leið með okkar hagkerfi og að ala á tortímingunni,“ segir hann ákveðinn. „Hrunið opnaði enn meira augu mín á hvað þessi meginskoðun um að markaðshagkerfið eigi að ráða sér er röng. Hún er bara vitleysa. En það eru allir menn sósíalistar, þeir átta sig bara ekki á því.“

Getum ekki fyrirgefið okkur eða horft í spegil

Þó það hafi verið ljúft að alast upp í nágrenni við Skálholt þá er Bjarni sannfærður um að þar hafi ekki verið gott að vera á 18. öld. Hann hefur sent frá sér bækur um sögulegan tíma á þessum slóðum og hann segist finna það sterkt á meðan hann skrifar að það sé mun betra að vera sá sem skrifar en sá sem upplifir þessa tíma. Á sama tíma og núlifandi Íslendingar geti þakkað fyrir að búa ekki við neyð og hungur sem margir þurftu að þola á 18. öld segir hann að við megum mikið læra af samlöndum okkar frá þeim tíma, sérstaklega þegar kemur að náungakærleika og hjálpsemi við þá sem þurfa. „Þegar þeim sem áttu bú mætti svarmi förufólks, öreiga og efnalausra sem voru grindhoruð og í tötrum, þá var þeim yfirleitt mætt með kærleika,“ segir Bjarni um fyrri aldir. „Mér finnst við ættum að hafa þetta í huga. Þetta var okkar fólk og okkar forfeður og þó þau hefðu ekki miklu að miðla gerðu þau það sem þau gátu.“ Nú á dögum segir hann allt annað uppi á teningnum. „Það eru mjög skrýtnir tímar. Við lifum á tímum þjóðflutninga og það að segja að fólkið sem nú fyllir Miðjarðarhafið eigi bara að vera heima hjá sér, það á bara ekki að gerast,“ segir Bjarni ómyrkur í máli. „Að við lokum okkar dyrum sem búum við allsnægtir, það getur hvorki verið skynsemi né nokkuð sem við getum fyrirgefið okkur eða horft framan í okkur og sagt: Við erum ánægð með þetta. Við erum ánægð með okkur þegar við sendum fólk til baka.“ Hann bendir á að við Íslendingar höfum sjálf fyrir ekki svo löngu verið landnemar hér. „Við komum hingað í erindaleysu. Það var alveg pláss fyrir okkur hvort sem var í Noregi eða Bretlandi en við bara komum. Við gerðum það. Og hvenær fengum við rétt til að segja hvenær það megi ekki fleiri koma? Þetta er bara ein jörð og við eigum hana saman.“

Þriðja bókin í þríleik Bjarna um Skálholt nefnist Síðustu dagar Skálholts og er komin út á vegum Sæmundar. Hann segir það vera kærkomið að hvíla sig aðeins á Skálholti en er þó viss um að hann muni aftur leggjast í Skálholtsgrúskið síðar.

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Bjarna Harðarson í Segðu mér á Rás 1. Hægt er að hlýða á allan þáttinn hér í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Kökur og kaffi, sögur og ljóð

Bókmenntir

Ættgöfug skáldlæða fagnar útgáfu ljóðabókar

Bókmenntir

Rammpólitísk skáldalæða gefur út ljóðabók