Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Þetta er ekki tíminn fyrir aðhald í ríkisfjármálum“

23.09.2020 - 20:05
Mynd með færslu
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. Mynd:
Kanadísk yfirvöld lofuðu í dag umfangsmiklum fjárfestingum og kynntu fyrirætlanir um að skapa fleiri en milljón störf. Ríkisstjórn Justins Trudeau hefur gefið það út að nú sé ekki rétti tíminn fyrir aðhald í ríkisfjármálum og lofað „að gera allt sem hægt er til að styðja við fólk og fyrirtæki eins lengi og kreppan varir, hvað sem það kostar“.

Í ræðu í kanadíska þinginu í dag sagði talsmaður ríkisstjórnarinnar að ráðist yrði í útgjaldaaukningu með sjálfbærni og langtímasjónarmið fyrir augum. Lögð yrði áhersla á að styrkja vinnumarkaðinn, meðal annars með eins konar hlutabótum og með því að efla atvinnuþátttöku ungs fólks.  

Talið er að áætlanir yfirvalda segi til sín á mörkuðum en í umfjöllun Reuters fréttastofunnar segir að hröð aukning á halla ríkissjóðs hafi fyrr í sumar valdið fjaðrafoki á mörkuðum, enda hafi matsfyrirtækið Fitch Ratings lækkað lánshæfismat Kanada í kjölfar mikillar útgjaldaaukningar.

Þá hafa yfirvöld heitið því að standa við markmið sín um að vinna gegn hlýnun jarðar og veitt fjármagni til verkefna á því sviði, til dæmis með því að auka aðgengi að rafbílum.