Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Telur mistök að fara í mikinn niðurskurð

23.09.2020 - 22:21
Mynd: Kristján Þór Ingvarsson / RÚV
Borgarstjórinn í Reykjavík segir að borgin verði að taka lán til að mæta verri afkomu vegna COVID faraldursins, óskynsamlegt væri að fara í niðurskurð. Oddviti Sjálfstæðisflokks vill hagræða og segir að borgin eigi að einbeita sér að kjarnastarfsemi.

Rekstrarafgangur fjögurra af fimm stærstu sveitarfélögum landsins versnar um rúma 6 milljarða króna miðað við sama tíma í fyrra samkvæmt síðasta árshlutauppgjöri, eins og fram kom í fréttum í gær. Tekjur lækka og útgjöld hækka.

Sigurður Ármann Snævarr sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga sagði að niðurstaðan sýni mjög alvarlega stöðu, ekki síst í ljósi þess að við séum rétt að byrja að takast á við mesta efnahagssamdrátt í manna minnum. Að sögn Sigurðar versnaði rekstrarafgangur Reykjavíkurborgar um 4,7 milljarða  á hálfu ári miðað við sama tíma í fyrra. Sé borgin borin saman við hin þrjú sveitarfélögin nemur sveiflan 36 þúsund krónum á hvern Reykvíking, en 19 þúsund hjá hinum þremur. Það skýrist meðal annars af góðri afkomu Reykjavíkur í fyrra. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri telur ekki rétt að fara í mikinn niðurskurð.

„Það er bæði óraunsætt og óskynsamlegt annað en að horfast í augu við það að þessi skellur verður ekki borinn öðruvísin en með að taka lán og greiða hann þannig. Við þurfum jafnframt að fara í fjárfestingar, það væru mistök af hálfu allra að mínu mati að boða mikinn niðurskurð ofan í stóra verkefni vetrarins, sem er atvinnuleysi.“

Eyþór Laxdal Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni vill að borgin einbeiti sér að kjarnastarfsemi.

„Það þarf að hagræða og hætta að vera í þessum rekstri sem ekki er kjarnastarfsemi borgarinnar. Það höfum við sagt áður, en það gildir ennþá meira núna heldur en áður.“