Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Stefnt að opnun Dýrafjarðarganga um miðjan október

23.09.2020 - 17:13
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Stefnt er að opnun Dýrafjarðaganga um miðjan október. Enn er þó ekki búið að ákveða nákvæma dagsetningu.

Baldvin Jónbjarnarson, eftirlitsmaður við Dýrafjarðagöng, segir að enn geti margt haft áhrif á hvenær göngin opna.

„Það getur margt komið upp á bæði vegna veðurs og COVID-19. Þess vegna er ekki búið að ákveða nákvæma dagsetningu.“

Hann segir verkið þó ganga vel og að inni í göngum sé svo til búið að ljúka allri vinnu. Nú sé verið að klára að tengja fjarskiptabúnað sem stýrir rafmagnsbúnaði inni í göngunum.

Utan ganga er búið að klæða fyrra lagið á alla vegi. Einnig er byrjað að setja vegrið.

„Síðan er verið að klára hliðarveg í Dýrafirði sem liggur inn fjörðinn og eins áningarstað í Dýrafirði þar sem er hægt að stoppa og horfa út eftir firðinum.“