Veðurstofan hefur gefið út gula veðurviðvörun fyrir Norðurland eystra og Austurland að Glettingi í nótt. Spáð er norðan stinningskalda eða allhvössum vindi með snjókomu og skafrennningi og lélegu skyggni.
Í nær samhljóða viðvörunum fyrir bæði landsvæði segir að færð geti spillst, einkum á fjallvegum. Á Norðurlandi eystra er spáð 10-15 metrum á sekúndu, og á Austurlandi að Glettingi 10-18 metrum á sekúndu.
Viðvaranirnar eru í gildi frá klukkan 22 í kvöld til klukkan 11 í fyrramálið.
Veðurhorfur á landinu eru norðlæg átt 8-15 metrar á sekúndu, hægari um landið austanvert fram á kvöld. Það verður úrkoma með köflum suðaustan til og dálítil él um norðanvert landið. Hiti verður frá frostmarki að sjö stigum, hlýjast syðst.