Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skoðar lífeyrissjóði vegna útboðs Icelandair

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Fjármálaeftirlit Seðlabankans skoðar ákvarðanir um aðkomu lífeyrissjóðanna að hlutafjárútboði Icelandair. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri greindi frá þessu frá á kynningarfundi um fjármálastöðugleika í dag. Hann sagðist telja ástæðu til að endurskoða uppbyggingu lífeyrissjóðakerfisins. Ásgeir nefndi engin nöfn en af samhenginu var ljóst að VR og Lífeyrissjóður verslunarmanna voru honum ofarlega í huga. Formaður VR beindi spjótum sínum í dag að varaformanni Lífeyrissjóðs verslunarmanna.

Vill skoða ákvarðanatöku um fjárfestingar

Seðlabankastjóri greindi frá því að fjármálaeftirlit Seðlabankans, sem hafi fylgst náið með útboði Icelandair Group hafi kallað eftir gögnum og sé að kanna framkvæmd þess. Hann sagðist ekki geta tjáð sig um einstaka sjóði og baðst undan slíkum spurningum. „Ég get líka bætt við því að fjármálaeftirlit Seðlabankans telur að útboðið sem slíkt og framvinda þess gefi tilefni til umhugsunar um fyrirkomulag ákvarðanatöku þegar kemur að einstökum fjárfestingum lífeyrissjóðanna.“

Hann benti á að FME hefði í fyrrasumar lýst áhyggjum af því að samþykktir sjóðanna uppfylltu ekki nægilega ströng skilyrði til að tryggja sjálfstæði stjórnarmanna. „Þetta bréf hefur verið ítrekað núna, að sjóðirnir endurskoði samþykktir til að tryggja sjálfstæði stjórnarmanna.“ FME sendi bréfið í fyrra út eftir að stjórn VR ákvað að afturkalla umboð stjórnarmanna sinna í Lífeyrissjóði verslunarmanna vegna óánægju með vaxtaákvarðanir sjóðsins.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Móti almenna stefnu en ákveði ekki einstök mál

„Mín skoðun er hins vegar að það þurfi að skoða allt ferlið upp á nýtt,“ sagði Ásgeir á fundinum í Seðlabankanum í dag. Nú skipi hagsmunaaðilar stjórnir lífeyrissjóðanna sem taki ákvörðun um einstaka fjárfestingar „sem að mínu viti ættu að vera teknar annars staðar“. Hann sagðist þó aðspurður ekki vera að segja að þeir sem eigi fulltrúa í stjórnum lífeyrissjóðanna ættu ekki að hafa skoðun á því hvernig lífeyrissjóðirnir haga sínum fjárfestingum. „Það er eðlilegt að stjórnir ákveði fjárfestingarstefnu, almenna, og hafi skoðun á því í hverju lífeyrissjóðirnir megi fjárfesta í en þegar kemur að einstökum fjárfestingarkostum þá er ákveðin hætta á því að aðrir hagsmunir en hagsmunir sjóðfélaga fái að ráða.“ Ásgeir sagði að kerfið hefði verið byggt upp í ákveðinni sátt en nú mætti velta því fyrir sér hvort að heiðursmannasamkomulag sem það byggði á héldi enn. Í ljósi þess hversu gríðarlegir hagsmunir væru undir fyrir þjóðina mætti velta því fyrir sér hvort að ekki þyrfti að endurskoða fyrirkomulagið.

Auk deilnanna um fulltrúa VR í fyrra vakti athygli þegar Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í miðri kjaradeilu Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands að hann væri andvígur því að Lífeyrissjóður verslunarmanna tæki þátt. Hann vildi að sjóðurinn sniðgengi umboðið eftir að Icelandair sleit viðræðum við Flugfreyjufélagið en dró það síðar til baka eftir að samningar náðust.

Ragnar vill að orð Guðrúnar verði skoðuð

Ragnar beindi orðum sínum að Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formanni Landssamtaka lífeyrissjóða og varaformanni stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna, á Facebook-síðu sinni í dag. Hann vísaði þar til orða Guðrúnar í fréttum Stöðvar 2 á föstudag þar sem hún lýsti vonbrigðum með því að tillaga hennar um þátttöku í útboði Icelandair hefði verið felld með atkvæðum fulltrúa VR í stjórn.

„Í ljósi stöðu sinnar og fyrri yfirlýsinga hlýtur fjármálaeftirlitið að komast að þeirri niðurstöðu að Guðrún Hafsteinsdóttir sé vanhæf til að sitja í stjórn lífeyrissjóðs með því að réttlæta fjárfestingu í Icelandair vegna þess hversu lítið hlutfall hún er af heildareignum,“ sagði Ragnar Þór og skoraði á fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands að taka ummæli hennar til skoðunar.

 

Mynd með færslu
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins.  Mynd:
Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna.