Sjáðu Boga og Ólaf Harðar spinna í Ráðherranum

Mynd: Sagafilm / Ráðherrann

Sjáðu Boga og Ólaf Harðar spinna í Ráðherranum

23.09.2020 - 11:11

Höfundar

Í fyrsta þætti af Ráðherranum á sunnudagskvöld mátti sjá Ólaf Þ. Harðarson og Boga Ágústsson leika sjálfa sig í kunnulegum aðstæðum á kosninganótt. Alls voru teknar upp 20 mínútur af spjalli félaganna en þeir studdust ekki við neitt handrit heldur spunnu af fingrum fram út frá skálduðum kosninganiðurstöðum þáttarins.

Hægt er að horfa á stjörnuleik Boga og Ólafs í allri sinni dýrð í spilaranum hér fyrir ofan. „Þetta var bara mjög skemmtilegt. Við erum í svo góðri æfingu við Bogi, það hafa verið svo margar kosningar undanfarin ár,“ segir Ólafur Þ. Harðarson í samtali við Morgunútvarpið. „Þannig að við gerðum þetta bara með svipuðum hætti. Við vorum ekki með handrit, við vorum settir aðeins inn í stöðuna og spunnum svo bara út frá því.“ Þeir þurftu aðeins að mæta einn tökudag og vissu af því að megnið af upptökunni ætti aðeins að nota í bakgrunni. „Svo notuðu þeir nú einhver skot með fleiri setningum en það var bara allt blandað á staðnum.“

Ólafur horfði á fyrsta þáttinn og fannst hann lofa mjög góðu og nálgunin áhugaverð. „Að vera með bi-polar forsætisráðherra, og svo er aðalpersónan mjög óvenjulegur stjórnmálamaður.“ Benedikt leggi til dæmis mikla áherslu samræðupólitík frekar en átakapólitík, sem sé í andstöðu við íslenska stjórnmálahefð. „En það gerir þetta áhugaverðara.“ Þá segist Ólafur aldrei hafa heyrt um það á neinum tíma í neinu landi að flokkur neiti að taka sæti í ríkisstjórn nema kjörsókn sé ákveðið góð. „Þegar ég heyrði það fyrst skildi ég ekki hvað handritshöfundarnir voru að hugsa. En þegar ég fór að velta því fyrir mér fannst mér það mjög sniðugt. En miðað við veruleikann er þetta algjör skáldskapur.“

Mynd: Fréttir / RÚV
Ólafur Þ. Harðarson ræddi nýtilkominn leikferil sinn í Morgunútvarpinu.

Hlutverki Ólafs í Ráðherranum er nú að mestu lokið en hann kemur fyrir í mýflugumynd í stuttu viðtali síðar í þáttunum. En þetta var mjög skemmtileg reynsla fyrir hann. „Að sjá þetta frá öðru sjónarhorni. Það var svo mikill atvinnumannabragur á öllu, eins og reyndar hefur einkennt íslenskar sjónvarpsseríur undanfarin ár. Það hafa orðið miklar framfarir á þessu sviði.“

Hulda Geirsdóttir ræddi við Ólaf Þ. Harðarson í Morgunútvarpinu á Rás 2.

 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Ólafur Darri á nálum yfir Ráðherranum

Stjórnmál

„Leyfum við stjórnmálamönnum að vera andlega veikir?“

Sjónvarp

Einstigi milli snilligáfu og geðveiki

Kvikmyndir

Tóku Ráðherrann upp á heimavelli höfunda