Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Segir þörf á að bæta stöðu flóttafólks á vinnumarkaði

23.09.2020 - 15:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Varða - rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins hefur í samstarfi við Alþýðusamband Íslands og BSRB boðað til opins rafræns fundar um málefni flóttafólks á íslenskum vinnumarkaði. Fundurinn átti að fara fram í dag en var frestað og verður haldinn í næstu viku, sennilega á mánudag.  

Þarf að hlúa að þessum hópi

Á fundinum verður fjallað um hvernig bregðast megi við auknum fjölda flóttamanna og hvert hlutverk verkalýðshreyfingarinnar er í því samhengi. Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, sérfræðingur í málefnum innflytjenda og flóttafólks á vinnumarkaði hjá ASÍ, er annar tveggja fyrirlesaranna og segir í samtali við fréttastofu að hún ætli að kortleggja stöðu flóttafólks á vinnumarkaði: „Ég fer yfir hugtök og skilgreiningar, til dæmis muninn á flóttamönnum og þeim sem voru kallaðir hælisleitendur. Svo tala ég um það af hverju við notum ekki lengur hugtakið hælisleitendur. Svo skoða ég stöðuna í dag og hvernig flóttamönnum hefur fjölgað. Þeir eru komnir hingað til að vera og það er sjálfsagt að við tökum þátt í að hlúa að þessum hóp,“ segir hún.   

Guðrún segir að hún hafi reynt að ná utan um það hversu mörgum flóttamönnum Ísland hefur tekið á móti. „Samkvæmt mínum tölum hafa 1559 manns fengið hér alþjóðlega vernd, af þeim komu 429 sem kvótaflóttamenn og 1130 fengið vernd á öðrum forsendum,“ segir hún.  

Verk að vinna að bæta kjör flóttafólks á vinnumarkaði 

Þá segir hún erfitt að nálgast tölur um flóttafólk á vinnumarkaði en að henni sýnist að 60 prósent flóttafólks sé á vinnumarkaði og fái að minnsta kosti 75 prósent af tekjum sínum úr launaðri vinnu. Hún segir að aðgengi flóttafólks að vinnumarkaði sé ekki svo slæmt hér á landi en að aðlögunin gangi ekki nógu vel. „Flóttafólk fær síður framgang í starfi en aðrir, það fær menntun sína ekki metna og ekki störf við hæfi,“ segir hún. 

Guðrún Margrét segir alvarlegt að fólk sem komi á áfangastað eftir að hafa verið á flótta sé jaðarsett þar. „Það eru teikn á lofti um að flóttafólki sé mismunað á vinnumarkaði og því höfum við verk að vinna ef við ætlum að skapa hér einn vinnumarkað fyrir alla,“ segir hún.  

Auk Guðrúnar Margrétar flytur Kinan Kadoni, flóttamaður frá Sýrlandi, fyrirlestur á fundinum. Hann byggir fyrirlesturinn á eigin reynslu af því að setjast að í Evrópu sem flóttamaður og reynslunni af því að vinna með flóttafólki á Íslandi.