Sara Björk jafnaði Katrínu yfir flesta landsleiki

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Sara Björk jafnaði Katrínu yfir flesta landsleiki

23.09.2020 - 14:17
Sara Björk Gunnarsdóttir fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta afrekaði það í gærkvöld að jafna leikjametið yfir flesta A-landsleiki fyrir Ísland í fótbolta. Sara Björk hefur nú spilað 133 landsleiki og er þar með búin að jafna landsleikjamet Katrínar Jónsdóttur.

Að óbreyttu mun Sara Björk þá slá leikjametið og eiga það ein þegar Ísland sækir Svíþjóð heim í undankeppni EM í Gautaborg 26. október. Tíu leikjahæstu landsliðskonur Íslands hafa allar spilað yfir 100 landsleiki. Þrjár þeirra voru í leikmannahópi Íslands í gær, Sara Björk, Hallbera Guðný Gísladóttir og Rakel Hönnudóttir. Rakel kom þó ekki við sögu í leiknum.

Hallbera komst í gær upp að hlið Dóru Maríu Lárusdóttur á leikjalistanum. Þær eru nú saman í 4. - 5. sæti með 114 landsleiki.

Leikjahæstu landsliðskonur Íslands

Katrín Jónsdóttir, 133 (1994-2013)
Sara Björk Gunnarsdóttir, 133 (2007-)
Margrét Lára Viðarsdóttir, 124 (2003-2019)
Dóra María Lárusdóttir, 114 (2003-2017)
Hallbera Guðný Gísladóttir, 114 (2008-)
Hólmfríður Magnúsdóttir, 112 (2003-2017)
Fanndís Friðriksdóttir, 109 (2009-)
Þóra Björg Helgadóttir, 108 (1998-2014)
Edda Garðarsdóttir, 103 (1997-2013)
Rakel Hönnudóttir, 102 (2008-)

Næstar til að spila 100 landsleiki verða líklega Dagný Brynjarsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir. Dagný á að baki 90 landsleiki og Glódís 86. Sif Atladóttir kemur svo næst með 82 landsleiki og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir 73.

Vísir bendir á að Sara Björk hafi aldrei misst af landsleik vegna leikbanns. Hún hafi spilað 32 mótsleiki í röð þar til hún missti úr einn leik í undankeppni HM 2019 sumarið 2018 á móti Slóveníu. Það kom til vegna meiðsla sem hún hlaut í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu vorið 2018.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Stigið gegn Svíum gæti reynst dýrmætt

Fótbolti

Sænskir sérfræðingar telja Íslendinga rænda sigri

Fótbolti

Svíar segja Sveindísi hafa komið sér opna skjöldu

Fótbolti

Jafntefli gegn Svíum í undankeppni EM