Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

SA vill efna samninga en kallar eftir sveigjanleika

23.09.2020 - 19:16
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
ASÍ og SA greinir á um afleiðingar kauphækkunar um áramótin. Forsendunefnd þeirra tókst ekki að komast að niðurstöðu í dag um hvort forsendur kjarasamninga væru brostnar.

Sérstök launa- og forsendunefnd skipuð þremur fulltrúum SA og þremur fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar fer nú yfir forsendur lífskjarasamningsins. Forsendurnar eru að kaupmáttur hafi aukist, vextir lækkað og verðtrygging verið afnumin.  Báðir aðilar eru sammála um að fyrstu tvær forsendurnar hafi staðist, það er að segja vaxtalækkunin og kaupmáttaraukningin en ekki loforð stjórnvalda um afnám verðtryggðra húsnæðislána til 40 ára. Nefndin kom saman til fundar í dag og hittist aftur á morgun. Drífa Snædal forseti ASÍ vill ekki tjá sig um hvort forsendur samninga séu brostnar.

„Ég ætla ekki að tjá mig um það sem fram fer í forsendunefnd, það er verið að leggja mat á þetta.“

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA  hafði þetta að segja eftir fundinn í dag:

„Það er of snemmt að lýsa því yfir hver afstaða Samtaka atvinnulífsins í þessu máli er því miður verður það að bíða og fara í gegnum þetta ferli sem þessi forsendunefnd SA og ASÍ sannarlega er.“

Samkvæmt kjarasamningum eiga laun að hækka um næstu áramót, taxtalaun um 24 þúsund og almenn laun um 15.750 krónur. Þorsteinn Víglundsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og fyrrverandi félagsmálaráðherra,  skrifaði grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann sagði forsendur kjarasamninga brostnar og ef kauphækkanirnar kæmu til leiddu þær annaðhvort til verðbólgu eða aukins atvinnuleysis nema hvort tveggja væri.

„Við tökum ekki undir það. Við segjum að ef á að skerða kjör eða fara framhjá kjarasamningum er það engin ávísun á að störfum fækki ekki eða störfum fjölgi og það er svo sem ekkert í kortunum sem bendir til þess. Boltinn er svolítið hjá stjórnvöldum núna, að styðja við atvinnulífið, að styðja við atvinnuleitendur og halda uppi kaupmætti og halda áfram einkaneyslu eins og er eina leiðin til þess að koma okkur út úr þessari stöðu,“ segir Drífa.

Halldór Benjamín tekur orð Þorsteins alvarlega.

„Ég hef miklar mætur á Þorsteini Víglundssyni og finnst hann bera gott skynbragð á samtíma og fortíð og læt þar við sitja að sinni.“

Drífa segir atvinnugreinarnar misjafnlega staddar og ASÍ hugnist ekki heildarlausnir stjórnvalda fyrir vinnumarkaðinn, heldur sé kallað eftir lausnum fyrir einstaka greinar og hópa og þá sem eru að missa vinnuna. Halldór Benjamín segir SA vilja efna kjarasamninga að fullu en kallar eftir sveigjanleika frá viðsemjendum. Bæði segja þau ýmsar leiðir út úr þeirri stöðu sem uppi er, en forsendunefndin hefur tíma til mánaðamóta að komast að niðurstöðu.