Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Rosa skrýtið að þurfa að vera með grímu í COVID“

23.09.2020 - 19:45
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Framhaldsskólanemar segja sóttvarnaráðstafanir hafa mikil áhrif á félagslíf þeirra og nám. Einungis þrjú börn mættu í einn af grunnskólum borgarinnar í morgun, þar sem flest önnur voru í sóttkví.

Það var tómlegt um að litast þegar fréttastofa kom að í Hvassaleitisskóla í morgun, en þar voru einungis þrjú börn mætt. 23 starfsmenn eru í sóttkví og allir árgangar í skólanum nema fimmti og sjötti bekkur, auk örfárra yngri barna, sem ekki voru í frístundastarfi síðastliðinn föstudag. 

En hvað vita börnin um sjúkdóminn? „Ég veit að maður getur dáið. Ég veit að það er ekkert þægilegt að fá COVID,“ segir Helgi Halldórsson, 8 ára. Friðrik Bjarki Sigurðsson, 7 ára, hefur ekki miklar áhyggjur af því að fá sjúkdóminn. „Ég er krakki þannig að ég fæ ekki svo mikið COVID ef ég fæ COVID.“

Þeir segja skrýtið ef allir þyrftu að vera með grímu í skólanum. „Já, rosa skrýtið að þurfa að vera með grímu í COVID,“ segir Friðrik Bjarki.

Nemendur í framhaldsskólum verða einnig áþreifanlega varir við faraldurinn. Mikill hluti námsins fer fram í fjarkennslu og allir þurfa að bera grímu í skólanum.