Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ríkustu 10% eiga 44% eigna á Íslandi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heildareignir fjölskyldna á Íslandi jukust um 8,6% frá 2018 til 2019, eða úr 6.855 milljörðum króna í 7.442 milljarða króna. Þau 10% sem eiga mest eiga um 44% af heildareignum.

Þetta kemur fram í frétt sem birt var á vef Hagstofunnar í morgun.

Þar segir að eigið fé fjölskyldna hafi verið 5.176 milljarðar árið 2019, sem sé aukning um rúm 9% frá árinu áður. Það sé þó minni hækkun en árin á undan. Þá kemur fram að eignir hafi aukist meira en skuldir milli áranna 2018 og 2019. Eignir jukust þá um 8,6% en skuldir um 7,3%.

Með eignum er átt við allar eignir fjölskyldu, þar með talið fasteignir, ökutæki, innistæður í bönkum og verðbréf. Árið 2019 var hlutur fasteigna af heildareignum fjölskyldu rúmlega 75%, ökutækja rúmlega 4%, bankainnistæðna 11% og verðbréfa 7,5%. Eignir fjölskyldna í hæstu tíu prósentum eigna námu 3.267 milljörðum króna eða um 44% af heildareignum. Það er nánast sama hlutfall og árið áður.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV