
Meiri óvissa vegna langvinnari faraldurs
Nefndin sér ekki ástæðu til að breyta sveiflujöfnunarauka sem er ætlað að styrkja viðnámsþrótt fjármálafyrirtækja í efnahagssveiflum, tryggja lánsframboð á samdráttartímum og milda áhrif fjármálasveiflna á raunhagkerfið. Sveiflujöfnunaraukinn verður óbreyttur næsta hálfa árið. Nefndin segir líka að slökun á taumhaldi peningastefnunnar hafi stutt við fjármálastöðugleika. Hún ítrekar þó að hún sé reiðubúin að beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika.
Sterk eiginfjár- og lausafjárstaða
Fjármálastöðugleikanefnd segir að eiginfjár- og lausafjárstaða bankanna þriggja sé sterk. Bæði hafi Seðlabankinn rýmkað verulega aðgengi bankanna að lausu fé og vaxtaálag á erlendum mörkuðum hafi lækkað. Því eigi bankarnir greiðan aðgang bæði að íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum.
Ástandið skapar hins vegar nýjar áskoranir fyrir starfsemi lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja að mati nefndarinnar. „Lífeyrissjóðir eru ráðandi þátttakendur á innlendum fjármálamarkaði og því er þörf á að skoða frekar umgjörð og áhættu tengda þeim.“