Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Landspítali býr sig undir aukinn fjölda COVID-sjúklinga

23.09.2020 - 20:12
Mynd: Ásvaldur Kristjánsson / Landspítali
Landspítalinn býr sig undir að leggja þurfi fleiri inn á næstu dögum, vegna fjölda COVID-smita undanfarna viku. Ef miðað er við reynslu fyrsta faraldursins gætu um tíu manns þurft innlögn á næstunni.

57 ný innanlandssmit greindust í gær úr metfjölda sýna sem greind voru. 324 eru í einangrun og 4.361 í sóttkví. Tveir eru á sjúkrahúsi. 

„Eins og við munum kannski frá því í vor þá voru þessir einstaklingar sem urðu mjög veikir hjá okkur, sem voru þá reyndar á sextugs og sjötugsaldri, þeir voru að veikjast alvarlega af þessum bólguviðbrögðum og áhrifum veirunnar á níunda til þrettánda degi,“ segir Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítala. 

Miðað við það, og í ljósi þess hversu margir hafi greinst undanfarna viku, megi búast við að sjá aukinn fjölda á spítala á næstu dögum. „En munurinn núna er að þetta eru töluvert yngri einstaklingar,“ segir Bryndís. Því gætu færri þurft innlögn, þar sem sjúkdómurinn leggst ekki eins þungt á ungt fólk.

105 voru lagðir inn á Landspítala í fyrstu bylgju faraldursins, og þegar mest var voru 42 inniliggjandi í einu. Frá því í sumar hafa samtals tólf þurft innlögn. Bryndís segir erfitt að segja til um hvort veiran sé vægari núna. „Það er náttúrulega hugsanlegt. Veirur, þegar þær fara í gegnum fyrsta, annað og þriðja ferlið, að þær kannski veikjast aðeins, en við höfum ekki séð nein afgerandi merki um það eða sannanir.“

Spítalinn hefur gefið sjúklingum sykurstera, sem draga úr bólgumyndun, með góðum árangri, sem og inflúensulyfið Favipiravir. Þá er e-bólulyfið Remdesivir gefið í alvarlegum tilfellum. „Þetta notum við á fólk sem er töluvert veikt, og höfum notað nokkrum sinnum núna í haust, en ekki mikið, enda hafa sjúklingar sem eru hérna inniliggjandi ekki verið mikið veikir vegna covid sem betur fer,“ segir Bryndís.

Aftur á móti hafi nokkrir sem eru með sjúkdóminn verið lagðir inn vegna annarra kvilla. „Og þá náttúrulega eru þeir á smitsjúkdómadeildinni og eru í einangrun og fá fulla umönnun en ekki kannski endilega inniliggjandi út af veirusýkingunni,“ segir Bryndís.

Önnur lyf hafa verið víða í umræðunni, til dæmis sníkjudýralyfið Iver-mectin. Bryndís segir mikilvægt að flýta sér hægt við að reyna ný lyf á sjúklingum. „Til þess að tryggja það að við séum ekki að nota lyf sem hugsanlega geta haft skaðleg áhrif frekar en ekki.“

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítala, segir mikinn viðbúnað á spítalanum, vegna þess fjölda sem gera má ráð fyrir að þurfi spítalavist á næstunni. Spítalinn er á hættustigi vegna fjölda starfsmanna sem eru í sóttkví, vegna smita sem komið hafa upp meðal starfsfólks. Sex af níu framkvæmdastjórum Landspítala eru í sóttkví. Alls eru um 200 starfsmenn spítalans í sóttkví og í það minnsta 22 eru í einangrun með sjúkdóminn.