Krísufundur hjá Ekstra Bladet eftir bréf 46 kvenna

23.09.2020 - 21:07
epa07297775 A man walks by a souvenir store in the city centre of Copenhagen, Denmark, during the sunny day, 18 January 2019.  EPA-EFE/SRDJAN SUKI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Krísufundur var hjá danska götublaðinu Ekstra Bladet í kvöld eftir bréf 46 kvenna sem birtist í Politiken Þar lýstu konurnar meðal annars kynbundinni áreitni á ritstjórninni. Þetta væru til að mynda niðurlægjandi brandarar, dónalegir tölvupóstar og kynferðisleg áreitni sem væri oft á mörkum þess að vera árás. „Ég hef bæði verið heyrnarlaus og blindur,“ segir ritstjóri blaðsins.

DR greinir frá. Poul Madsen, ritstjóri blaðsins, boðaði konurnar 46 á sinn fund í kvöld til að fara yfir stöðu mála.  Fram kemur á vef DR að á fundinum með konunum hafi hann beðist afsökunar. Hann ætli sér að breyta vinnu-umhverfinu og verkferlum og það eigi að duga til að laga þennan vanda blaðsins.

Bréfið í Politiken birtist eftir að Madsen lét þau orð falla í sjónvarpsviðtali á TV2 að hann kannaðist ekki við að eitthvað væri rotið í vinnustaðamenningu Ekstra Bladet. Hann vissi bara af tveimur málum sem tengdust kynbundinni áreitni.

Þær konur sem skrifuðu bréfið sögðu þessi ummæli ritstjórans hafa verið kornið sem fyllti mælinn. Hann hefði þarna verið að gera lítið úr upplifun þeirra og þess vegna hafi þær talið nauðsynlegt að birta bréfið á opinberum vettvangi.

Madsen sagði við danska fjölmiðla í dag að honum væri orðið það ljóst að hann hefði bæði verið blindur og heyrnarlaus.  Breyta yrði menningunni á ritstjórn blaðsins. „Ég greindi starfsmönnunum frá því að við þyrftum nýtt upphaf. Ekstra Bladet eins og það var í gær væri ekki lengur til.“

Svo virðist sem önnur #metoo-bylgja sé nú farin af stað í Danmörku eftir að sjónvarpskonan Sofia Linde greindi frá því launamisrétti sem hún hefði mátt þola. Þá hefði stórlax í dönskum sjónvarpsiðnaði beðið hana um kynferðislega greiða þegar hún var aðeins 18 ára. Og ef hún yrði ekki við beiðni hans gæti hann eyðilagt feril hennar. Samstarfskonur Linde hjá TV 2 skrifuðu undir stuðningsyfirlýsingu við hana þar sem þær gagnrýndu vinnustaðamenninguna hjá fjölmiðlum. 

Fram kemur á vef DR að nemar, sem voru í starfsnámi hjá fréttastofu DR á árunum 2015 til 2019, hafi einnig sent bréf til yfirstjórnar danska ríkisútvarpsins þar sem þeir lýsa kynbundinni áreitni, meðal annars óumbeðni nuddi og rassskellingum.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi