Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ísland á sama stað og Bretland varðandi nýgengi smita

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sólveig Klara Ragnarsdó
Ísland og Bretland eru með nánast jafn mörg smit á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur eða svokallað nýgengi smita. Þessi tala er 76,5 á Bretlandi en 75,4 á Íslandi, samkvæmt uppfærðum lista á vef sóttvarnastofnunar Evrópu. Ef miðað er við covid.is er talan mun hærri hér á landi en hjá Bretum eða 83,2. Ísland og Danmörk eru í algjörum sérflokki af Norðurlöndunum.

Nýgengi smita er það viðmið sem mörg ríki horfa til þegar settar eru ferðatakmarkanir á komur frá ákveðnum löndum. Þannig telja breskir fjölmiðlar yfirgnæfandi líkur á því að Ísland verði sett á lista yfir há-áhættusvæði á morgun þegar listinn verður uppfærður. 

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, ávarpaði bresku þjóðina í gær og hvatti hana til að sýna staðfestu og aga við að fylgja nýjum reglum vegna útbreiðslu veirunnar. Þar verða veitingastöðum og krám lokað klukkan tíu á kvöldin og í Skotlandi hefur verið gengið enn lengra og heimsóknir á milli heimila verið bannaðar.

Nýgengi smita á Norðurlöndum er hvergi hærra en í Danmörku miðað við vef sóttvarnarstofnunar Evrópu eða 93,7 smit á hverja hundrað þúsund íbúa.

Þýsk stjórnvöld tilkynntu í kvöld að íbúar  Kaupmannahafnar og Borgundarhólms þyrftu að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til Þýskalands ef þeir gætu ekki framvísað neikvæðri sýnatöku vegna COVID-19.  Hún mætti ekki vera meira en 48 stunda gömul.

Nýgengi smita hér á landi hefur hækkað mjög hratt síðustu daga eftir hópsýkingu í tengslum við skemmtanalífið í miðborg Reykjavíkur. Fyrir aðeins 12 dögum voru hér tæplega 11 smit á hverja hundrað þúsund íbúa en í dag eru þau 83,2, samkvæmt covid.is. Þetta er hærri en tala en sú sem birtist á vef sóttvarnastofnunar Evrópu. 

Talan er mun lægri á hinum Norðurlöndunum. Í Svíþjóð eru 36 smit á hverja hundrað þúsund íbúa, í Noregi er þessi tala 27,6 og í Finnlandi 15,5.  Gefi talan rétta mynd af stöðu mála er ástandið verst á Spáni þar sem eru nærri 315 smit á hverja hundrað þúsund íbúa.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV