Hugmynd um samstjórn í Múlaþingi fær ekki undirtektir

23.09.2020 - 11:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Fjögur sveitarfélög á Austur
Oddviti Austurlistans í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi hefur lagt til að samstjórn verði mynduð eftir kosningar þar á laugardag. Hún telur að vilji kjósenda sé hunsaður með meirihlutaviðræðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem hefði aðeins 48% atkvæða á bak við sig og eina konu í bæjarstjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn var í lykilstöðu eftir kosningarnar á laugardag með fjóra menn og gat valið hvort hann ræddi við Austurlistann eða Framsókn um myndun meirihluta. Í gær var tilkynnt um viðræður við Framsókn sem fékk tvo menn.

Í minnihluta yrðu þá Austurlisti með þrjá menn og VG og Miðflokkur með einn mann hvort framboð.

Ellefu bæjarfulltrúar voru kjörnir. Fimm koma frá Fljótsdalshéraði, þrír frá Seyðisfirði, tveir frá Borgarfirði eystra og einn frá Djúpavogi.

Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlistans, vekur athygli á því í viðtali við Austurfrétt að einungis ein kona myndi sitja sem bæjarfulltrúi í meirihluta Framsóknar og Sjálfstæðismanna. Slíkur meirihluti hefði minnihluta atkvæða á bak við sig, 48%. Í viðtalinu segir hún vonbrigði að Sjálfstæðisflokkur hafi ekki valið að mynda meirihluta með Austurlistanum sem fékk næstflest atkvæði. Slíkur meirihluti hefði verið sterkari og með þessu sé verið að hunsa niðurstöðu kosninganna. Hún leggur til að vegna þess hve stór verkefni eru fram undan að farið sé að fordæmi Akureyringa og mynduð samstjórn.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsókn ekki tekið undir þessa hugmynd og stefna að því að klára málefnasamning fljótlega eftir helgi.

Eitt af fyrstu verkum nýrrar sveitarstjórnar verður að ákveða hvað sveitarfélagið á að heita en íbúar völdu nafnið Múlaþing í nafnakönnun. Talið er líklegt að farið verði að vilja íbúanna í þeim efnum.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi