Hótelinu á Deplum lokað - staðan metin eftir áramót

23.09.2020 - 15:12
Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Atli Magnússon - RÚV/Landinn
Lúxushótelinu Deplar Farm í Fljótum hefur verið lokað og stærstum hluta starfsfólksins sagt upp. Framkvæmdastjórinn segir vonbrigði að fá ekki leyfi til að taka á móti ferðamönnum sem gætu dvalið í sóttkví á Deplum.

Deplar Farm er í eigu bandaríska fyrirtækisins Eleven Experience. Hótelið er á jörðinni Deplum í Fljótum og var opnað vorið 2016. Húsið er um 2500 fermetrar, með 12 svítum og gistingu fyrir tæplega 30 manns.

Vonar að lokunin sé tímabundin

Haukur B. Sigmarsson, framkvæmdastjóri Eleven Experience á Íslandi, segist vona að lokunin sé aðeins tímabundin. Staðan verði endurmetin eftir áramót. Sextíu og eitt stöðugildi hafi verið á hótelinu að meðaltali á ársgrundvelli en mikil fækkun hafi orðið eftir tvær hinur uppsagna á þessu ári. Sú fyrri var í upphafi faraldursins í vor og hin um síðustu mánaðamót. Aðeins verði 13 starfsmenn eftir á Deplum til að halda við húsakosti, tækjabúnaði og slíku.

Vildi fá að taka hópa í sóttkví

Haukur segir það mikil vonbrigði að þurfa að loka. Fyrirtækið hafi reynt að fá svör við þeim tillögum að Deplar taki á móti erlendum ferðamönnum til að dvelja þar í sóttkví. Fólk í markhópi Eleven Experience hafi aðstöðu til að koma sér til landsins óháð almennum flugsamgöngum og margir komi með einkaþotum til Akureyrar. Deplar séu kjörinn staður til að taka á móti svona hópum, með ströngum sóttvarnareglum, sem geti dvalið þar í sóttkví án samneytis við aðra.

Mikill áhugi á Íslandsferðum

Hann segir mikinn áhuga hjá þessum markhópi á því að koma til Íslands. Forsendur fyrir því hafi hins vegar brostið við ákvörðun um tvöfalda skimun við landamærin og fimm til sex daga sóttkví. Deplar Farm hafi reynt að vekja athygli sóttvarnayfirvalda á þessu, og lagt til lausnir, en ekki haft erindi sem erfiði.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi