Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hópsýking í Stykkishólmi

23.09.2020 - 10:30
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanns Jónsson - RUV.is
Sjö íbúar Stykkishólms eru smitaðir af COVID-19. Enginn var í sóttkví við greiningu en allir eru nú komnir í einangrun. Búið er að grípa til aukinna ráðstafana í bænum og er aukin skimun í undirbúningi.

Frá þessu er greint á heimasíðu Stykkishólmsbæjar. 

Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi, segir í samtali við fréttastofu að viðbragðsteymi hafi fundað í gær og að ákveðið hafi verið að hörfa til ráðstafana sem voru uppi í fyrstu bylgju faraldursins í vor. Undir það fellur meðal annars að setja heimsóknabann á dvalarheimilinu í Stykkishólmi og hólfaskipta grunnskóla og leikskóla bæjarins. Í ráðhúsi Stykkishólmsbæjar er nú einnig heimsóknabann. 

Viðbúið að fleiri fari í sóttkví

18 voru þar í sóttkví í Stykkishólmi um helgina en einhverjir þeirra útskrifuðust í gær. Jakob segir að sýktu einstaklingarnir hafi umgengist hóp af fólki. Því sé viðbúið að fjöldi þeirra sem séu í sóttkví í Stykkishólmi muni hækka í dag.  Einnig sé hætta á að fjöldi smitaðra hækki.