Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Göngugötur í Kvosinni til framtíðar

23.09.2020 - 16:52
Mynd með færslu
 Mynd:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hefur lagt til breytingar á umferðarskipulagi í Kvosinni. Þar er gert ráð fyrir að kjarni Kvosarinnar verði göngugötusvæði til framtíðar og að göturnar í kring verði vistgötur. Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, segir að hugmyndin sé að gefa mannlífi meira pláss í Kvosinni.

Austurstræti og Hafnarstræti verði göngugötur

Í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar má sjá á korti hvernig breytingunum verður háttað, verði tillagan samþykkt. Þar má líka sjá framtíðarsýn Reykjavíkurborgar sem miðar til dæmis að því að allt Austurstræti verði göngugata og það sama á við um Hafnarstræti. Þá er stefnt að því að Aðalstræti og Tryggvagata verði vistgötur.

„Þetta er bara hluti af þeirri vegferð sem borgarstjórn fór í, að hafa göngugötur alla leið frá Kvosinni og upp að Hlemmi,“ segir Sigurborg í samtali við fréttastofu. Hugmyndin sé að gefa mannlífi meira pláss í Kvosinni og að láta hana tengjast við Hlemm með göngugötu. „Á milli Kvosarinnar og Hlemms fer borgarlína svo það verða góðar samgöngur en líka auðvelt að komast fótgangandi,“ segir hún. Stefnt sé að því Laugavegur verið næstum allur göngugata.

„Kvosin er það svæði í borginni þar sem eru langflestir gangandi. Þar er bara takmarkað svæði fyrir bíla. Svo eru veitingastaðir að stækka sín útisvæði og það er ekkert gaman að sitja úti og borða innan um bíla. Ég held að þetta muni lyfta Kvosinni upp,“ segir Sigurborg. 

Yfirstandandi framkvæmdir tefja breytingarnar

Aðspurð hvenær hún telji breytingarnar koma til framkvæmda segir Sigurborg það enn óljóst. Yfirstandandi framkvæmdir á Tryggvagötu og á Landsímareit flæki aðeins málið: „Við þurfum að spila þetta eftir því hvernig framkvæmdum vindur fram. Ég vonast til að geta komið þessu í verk sem allra fyrst,“ segir hún.

Í tilkynningu Reykjavíkurborgar kemur fram að áætlunin verði innleidd í áföngum og að stór hluti gatnanna á svæðinu sé nú þegar vistgötur og göngugötur. „Til að byrja með er gert ráð fyrir að sá kjarni sem síðar er gert ráð fyrir að verði göngugötur verði gerður að vistgötum,“ segir í tilkynningunni. Þá verði venjulegum bílastæðum í þeim götum fækkað til muna en stæðum fyrirhreyfihamlaða og til vöruafgreiðslu fjölgað. 

Liður í að bæta umferðaröryggi

Tillagan er liður í að bæta umferðaröryggi á svæðinu og í því að fylgja eftir áherslum umferðaröryggisáætlunar borgarinnar. „Því miður er einna mest samþjöppun slysa á gangandi vegfarendum í borginni í miðborginni og þrátt fyrir að umferðarhraði sé almennt lágur í miðborginni eru afleiðingar hluta umferðarslysanna þar sem ekið er á gangandi vegafarenda alvarlegar,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að tillagan sé í samræmi við áherslur gildandi aðalskipulags borgarinnar og sérstaklega er vísað í kaflann Gatan sem borgarrými en þar segir: „Unnið verði markvisst að endurhönnun almenningsrýma og göturýma í borginni í þeim tilgangi að efla mannlíf og bæta borgarbrag, sbr. eldri verkefni s.s. Torg í biðstöðu og Sumargötur. Þær götur sem skilgreindar eru sem Aðrar götur á þéttbýlisuppdrætti má skilgreina sem göngugötur, varanlegar eða árstíðabundnar, sbr. ákvæði hér að neðan. Áhersla verður á gerð göngugatna í miðborginni á næstu árum.“