Gerist ekki neitt án núnings og átaka

Mynd: RÚV / Menningin

Gerist ekki neitt án núnings og átaka

23.09.2020 - 09:27

Höfundar

„Mér finnst stundum eins og ég sé að reyna að henda reiður á veröldinni, það eru alls kyns ólgur í gangi,“ segir Margrét H. Blöndal listamaður sem opnaði á dögunum sýninguna Loftleikur / Aerotics í i8 gallerý við Tryggvagötu.

„Þessi sýning samanstendur af teikningum sem ég vann í sumar og svo þrívíðum verkum sem eru unnin beint inn í þetta rými,“  segir Margrét. „Í sumar var ég svo lánssöm að vera með stúdíó þannig að ég gat farið inn á vinnustofu og teiknað. Það er svona meira eins og medítatíft ástand en skúlptúrarnir eru öðruvísi.“ 

Teygðar súlur

Sýningarrýminu var breytt til að verða hluti verkanna eða jafnvel sjálfstæð heild. „Þessi veggur sem er í miðju rýminu um leið og við komum inn, hann var reistur. Ásmundur Hrafn Sturluson arkitekt hannaði sjálft rýmið hér og við hittumst af því að mig langaði til að vera með eitthvað inngrip. Breyta strúktúrnum svolítið. Við ákváðum að teygja súlur sem voru hérna, toga þær til, þannig að veggurinn verður svolítið eins og objekt í sjálfu sér.“

Tiltekin dýrategund listamanna

Verkin vinnur Margrét í samofnu ferli. „Ég er þannig að ég get aldrei vitað fyrirfram hvað verður. Ég get aldrei skissað upp af því að verkin verða til í tengslum og við það að meðhöndla efni. Svo smátt og smátt fæðist eitthvað en það verður ekki til fyrr en á síðasta punkti.“

Að hennar sögn er þetta ferli án orðaðra hugmynda eða viðfagnsefna. „Ég tilheyri þeirri dýrategund myndlistarmanna þar sem myndlistin er tjáningarform af því að orðunum sleppir. Þannig að þegar ég vinn að þessum verkum þá eru ekki orð, ég er ekki með nein orð, ég er bara með þessa skynjun, þetta að toga efnið til, finna það, klippa það, strjúka því og ég er mjög impúlsíf þegar ég vinn. Hver hlutur hefur 360 gráður og það er bara að finna rétta snúninginn. Þetta er eins og samspil á milli fólks og dýra, maður getur togað fram einhverja eiginleika. Þegar ég er að vinna eins og hér þá verður alltaf að verða til einhver núningur og það verða að vera einhver átök því annars gerist ekkert.“

Sýningin stendur til 10. október en nánari upplýsingar um hana má finna hér.

Tengdar fréttir

Tónlist

Óendanleg vögguvísa Ragnars flutt í kirkju í Mílanó

Myndlist

Þeir komu með leikgleði í myndlistina

Myndlist

Skar út veggfóður og flutti í heilu lagi heim

Bókmenntir

Áhrifavaldar í list Margrétar H. Blöndal