Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Fróðárheiði kláruð 26 árum eftir stofnun Snæfellsbæjar

23.09.2020 - 16:17
Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Fróðárheiði á Snæfellsnesi er nú öll lögð bundnu slitlagi. Eftir þessu hefur verið beðið frá því að sveitarfélagið Snæfellsbær var stofnað 1994.

Bundið slitlag var lagt á síðasta kaflann á Fróðárheiði í síðustu viku. Vegurinn liggur yfir Snæfellsnes, frá Staðarsveit að sunnan og norður yfir heiðina í Fróðársveit, austan við Ólafsvík. Þessi síðasti kafli setur punkt við áralanga bið íbúa Snæfellsbæjar, allt frá því sveitafélagið var stofnað 1994 með sameiningu Ólafsvíkurkaupstaðar, Neshrepps utan Ennis, Breiðavíkurhrepps og Staðarsveitar.

Kristinn Jónasson er bæjarstjóri Snæfellsbæjar.  

„Þegar var sameinað á sínum tíma var talað um að þetta yrði það fyrsta sem yrði gert til þess að sameina sveitarfélagið og samgöngur yrðu góðar, að klára veginn yfir Fróðárheiðina, og það er búið að taka 26 ár. Nú bindum við bara vonir við að þessi góði vegur muni létta okkur lífið næstu áratugi.“

Um tuttugu mínútur tekur að aka Fróðárheiði, sem er um 14 kílómetrar. Öðrum kosti þurfa íbúar að keyra fyrir Snæfellsjökul, þónokkuð lengri leið.

Óhætt er því að segja að vegurinn bindi sveitarfélagið saman.

„Þannig að fólk getur þá hugsanlega, eins og með íbúamöguleikana, þeir verða miklu meiri. Það skiptir ekki máli hvoru megin við fjallgarðinn þú býrð ef samgöngurnar eru í lagi. Þannig ég held það skipti miklu máli fyrir dreifbýlið að fólk geti þá sótt vinnu hérna yfir í þéttbýlið,“ segir Kristinn.

Einungis frágangur er nú eftir og má búast við því að honum ljúki næsta vor.